Útispeglarnir á förum

Bandaríska umferðaröryggisstofnunin NHTSA hefur lagt byltingarkennda tillögu fyrir bílaframleiðendur. Hún er um að hætta að setja útispegla á bíla. Í stað þeirra komi myndavélar sem sýna ökumanni á skjá inni í bílnum hvað er aftan við bílinn og til hliðar við hann. Tillagan er hluti nýrra reglna og krafna um að allir nýir fólksbílar upp að 4,5 tonnum að eigin þyngd skulu búnir bakmyndavélum frá og með maí 2018. Í reglunum er tekið fram hvaða svæði umhverfis bílinn myndavélarnar skuli sýna á skjá inni í bílnum og hvar og hvernig skjárinn skal vera staðsettur í bílnum.

Nýju reglurnar og tillagan um að leggja baksýnisspeglana af þykja byltingarkenndar vegna þess að þetta er í fyrsta sinn sem NHTSA lætur sig varða öryggi fólksins utan bílsins. Fram að þessu hefur áherslan eingöngu verið á öryggi fólksins í bílnum, það er að segja öryggisbelti, loftpúða, krumpusvæði, árekstrarprófanir og slíkt. En það er hins vegar full ástæða til þess að huga að bættu útsýni ökumanna út úr bílunum því að samkvæmt bandarískri slysatölfræði látast 210 manns árlega og 15 þúsund slasast þegar ekið er á óvarða vegfarendur sem ökumenn sáu ekki. Af látnum og slösuðum í þessum slysum eru þriðjungur börn undir fimm ára aldri. Í 26 prósent slysanna eru það svo 70 ára og eldri sem eru fórnarlömbin.

Oftast hafa bílaframleiðendur rekið upp ramakvein um kostnað og tæknierfiðleika þegar þeir hafa verið skyldaðir til að setja nýjan tæknibúnað í bíla. Það gerðist fyrst þegar öryggisbeltin komu til sögunnar, læsivarðir ABS hemlar, ESC skrikvarnarbúnaður svo ekki sé nú talað um óháðu árekstursprófin. En við setningu þessarar nýju reglugerðar er annað uppi – engin mótmæli hafa heyrst, enda hafa heimssamtök bílaframleiðenda um nokkurt skeið unnið að því að þróa góða myndavélatækni sem á að gera baksýnisspeglana bæði úti og inni óþarfa.

En ljóst er að löggjafarvaldið verður að ganga í takt við þessar fyrirætlanir og í því efni á vafalaust eftir að ganga á ýmsu. Það er nefnilega þannig í flestum löndum að í lögum og reglugerðum stendur að baksýnisspeglar skuli vera í og utan á bílum. Ekkert stendur hins vegar um það hvað þessir speglar eigi að gera og hvaða svæði umhverfis bílana skuli sjást í þeim. Með góðum myndavélaaugum aftan á og á hliðum bíla er nefnilega frekar einfalt að skapa mynd sem sýnir allt aftan við og til beggja hliða bílsins þannig að engir “blindir” blettir eru til staðar. Með inni- og útispeglum er það hins vegar mun flóknara. Það er því ekki útilokað að bíll með góðum myndavélabúnaði fengist ekki skráður einhversstaðar ef engir speglar fyrirfinnast í eða á honum. Mikilvægt er því að breyta laga- og reglugerðatextum um baksýnisspegla og -búnað í tæka tíð.

En það er ekki bara að útsýni ökumanna batni með myndavélabúnaðinum heldur mun hann spara eldsneyti í talsverðum mæli. Það er vegna þess að töluverð loftmótstaða er af útispeglunum á bílum – mismikil vissulega. Í frétt frá Ford í Bandaríkjunum kemur fram að myndavélarbúnaður í stað útispegla á pallbílnum Ford F-150, algengustu bílgerð Bandaríkjanna, myndi spara um 100 milljón lítra af bensíni árlega.