Möguleiki á áframhaldandi gjaldtöku þvert á það sem samið var um

Fram kom í fréttum í vikunni að Innheimtu veggjalda í Hvalfjarðargöngum verður hætt í lok sumars enda sé það í takt við það sem samið var um áður en framkvæmdir við göngin hófust fyrir tæpum tuttugu árum síðan. Stefnt sé að því að Spölur sem rekur Hvalfjarðargöng afhenti ríkinu göngin í lok sumar. Endanleg dagsetning liggi ekki fyrir í þeim efnum.

Þjónustu við göngin hvað varðar öryggismál og viðhaldi þarf að sinna þó gjaldtöku verði hætt. Ríkið yfirtekur þá þjónustu en starfsemi Spalar verður hætt, að minnsta kosti í núverandi mynd. 

Í viðtali í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær kom fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgönguráðherra og formanns Framsóknarflokksins, að engin ákvörðun hafi verið tekin um það af hálfu ríkisins hvort að gjaldtöku verði hætt í Hvalfjarðargöngunum síðar á þessu ári þegar ríkið tekur við rekstri ganganna af hálfu Spalar. Þessi ummæli vöktu athygli og þvert á það sem samið var um áður en framkvæmdir við göngin hófust.

Í viðtalinu umrædda við Sigurð Inga kom fram að engin ákvörðun hafa verið tekin hvort það þurfi nú þegar að fara í að grafa ný göng og hvernig þau verði fjármögnuð. Aðspurður um það hvort að að gjaldtöku yrði þá ekki hætt svaraði ráðherrann því ekki beint og vildi ekki staðfesta að gjaldtökunni yrði hætt. 

Ráðherrann sagði ennfremur að það þyrfti að skoða það hvort að það væri skynsamlegt að hætta gjaldtöku núna og taka hana aftur upp eftir tvö ár því þá þyrfti að fara í tvöföldun á göngunum. Hann sagði síðan skynsamlegra að leggjast yfir málið núna og taka síðan ákvörðun.

Í umræðu þessari er forvitnilegt að rifja upp svör við spurningum sem FÍB-blaðið lagði fyrir flokkana í aðdraganda Alþingiskosninganna þann 28. október sl. Samgöngumál er ein af grunnstoðum þjóðfélagsins og að vonum var þessi málaflokkur töluvert til umræðu fyrir kosningarnar.

Í einni spurningunni sem var lögð fyrir flokkana kom fram að Jón Gunnarsson þáverandi samgönguráðherra og fleiri hafi talað fyrir hugmyndum um vegatolla á öllum samgönguleiðum út frá höfuðborgarsvæðinu vegna brýnna tugmilljarða vegaframkvæmda. Um væri að ræða upptöku á vegum og eignum í eigu borgaranna til vegafélags/félaga sem vegfarendum væri leigður aðgangur að í nokkra áratugi. Hver er afstaða þíns flokks/framboðs til viðbótar skattlagningar á vegfarendur í formi vegatolla? 

Svar Framsóknarflokksins var eftirfarandi: Framsóknarflokkurinn er ekki hlynntur vegatollum, þeir eru viðbótarskattur sem leggst þyngst á þá sem sækja vinnu daglega til höfuðborgarsvæðisins.