Vaðlaheiðargöng á alþingi í dag?

Frumvarp fjármálaráðherra um heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði (á skjön við nýlegar reglur um ríkisábyrgðir) var á dagskrá alþingis í gær tll framhalds annarrar umræðu. Málið hið fimmta á dagskrá gærdagsins en langvinn umræða um veiðigjöld kom í veg fyrir að umræða um göngin gæti hafist. Málið er því á dagskrá þingfundar í dag og er hið sjöunda í röðinni.

Þung undiralda gegn málinu er á þinginu og í samfélaginu öllu og óvíst um afdrif þess. Andstaðan gegn því snýst alls ekki um sjálf göngin heldur um það hvernig þau hafa verið tekin út úr forgangs- og hagkvæmnisröð samgönguáætlunar. Síðan er það ætlunin að eftirláta opinberum aðilum og þar með skattgreiðendum landsins mestalla eða alla áhættu og kostnað af þessari svokölluðu einkaframkvæmd sem sögð verða fjárhagslega sjálfstæð þó að því fari fjarri.

Í þessari grein Björgvins Sighvatssonar hagfræðings koma ágætlega fram í stuttu hnitmiðuðu máli rök þeirra sem séð hafa í gegn um fjármögnunarleiktjöld aðstandenda þessarar fyrirhuguðu pilsfaldakapítalísku framkvæmdar.