Vaðlaheiðargöng rædd

Sjónvarpað var frá opnum fundi um Vaðlaheiðargöng í samgöngunefnd Alþingis síðastliðinn föstudag. Upptöku frá fundinum má sjá hér.

 Fundurinn var haldinn að ósk Marðar Árnasonar alþingismanns. Mörður sagði í upphafi fundarins að ákvörðun um að ráðast í gerð Vaðlaheiðarganga væri spurnarefni. Hann spurði hversu brýnt væri að ráðast í gerð ganganna út frá sjónarmiðum um umferðaröryggi og hvernig tryggja mætti að kostnaður við þau lenti ekki á almenningi. Hann spurði hvort framkvæmdin væri nógu vel undirbúin og sagðist vonast til að á fundinum kæmi í ljós hvort svo væri.

 Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB var meðal gesta hjá samgöngunefnd og gerði grein fyrir sjónarmiðum FÍB. Einkum setti hann spurningarmerki við áform um tekjur af vegatollum. Varnaðarorð FÍB um tekjuhlið ganganna hafa verið birt hér á vef FÍB svo og í FÍB blaðinu. Í máli Runólfs kom fram að frá því að FÍB hóf fyrst að fjalla um kostnað og tekjur af Vaðlaheiðargöngum hefur Vegagerðin hækkað kostnaðaráætlunina um tæpan milljarð króna.

 Nánar verður sagt frá efni fundarins síðar hér á vefsíðu FÍB.