Vaðlaheiðargöng töpuðu 1.3 milljörðum króna árið 2022

Vaðlaheiðargöng hf., sem byggði og rekur samnefnd göng á Norðurlandi og eru í 93 prósent eigu íslenska ríkisins, töpuðu rúmlega 1,3 milljörðum króna á árinu 2022. Það er umtalsverð aukning á tapi frá árinu áður, þegar tapið var 885 milljónir króna. Þetta kemur fram í umfjöllun á Heimildinni um málið.

Á Heimildinni kemur fram að rekstrartekjur félagsins jukust lítillega milli ára, úr 603 í 641 milljón króna, en fyrir staka ferð fólksbíls í gegnum göngin þarf að greiða 1.650 krónur. Handbært fé um liðin áramót var einungis 56 milljónir króna.

Íslenska ríkið breytti fimm millj­örðum króna af skuldum Vaðla­heið­ar­ganga hf. við rík­is­sjóð í nýtt hluta­fé í fyrra. Við það fór eignarhlutur þess úr 34 í 93 prósent. Auk þess samdi ríkið við félagið um að lengja í lánum þess til árs­ins 2057 þannig að það greiði um 200 millj­ónir króna á ári af því.

Gerð Vaðlaheiðarganga fór langt fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun og ljóst var að rekstur þeirra yrði erfiður. Umferð um göngin myndi líklega aldrei standa undir rekstrinum eins og komið hefur á daginn. Tapið á síðasta ári er skýrt dæmi um það. Mikillar bjartsýni gætti um hagkvæmni þessara ganga í upphafi en þær áætlanir eru ekki að ganga eftir, að minnsta kosti ekki enn sem komið er. FÍB benti á það á sínum tíma að rekstrarkostnaður vegna Vaðlaheiðarganga væri mjög vanáætlaður.

Þess má geta að alls voru farnar um 550 þúsund ferðir um Vaðlaheiðagöng árið 2022. Umferð var hleypt á Vaðlaheiðargöng 21. desember 2018.