Valmet í Finnlandi eignast Karmann

Bíla og yfirbyggingasmiðjan fornfræga, Karmann í Osnabruck í Þýskalandi hefur  átt í erfiðleikum undanfarin ár. Þeir erfiðleikar eru líklega að baki að miklu leyti því að nú hefur Valmet í Finnlandi eignast Karmann og jafnframt fengið það verkefni að byggja nýjustu gerð Audi A3 með opnanlegum toppi. Frægasti bíll sem Karmann hefur byggt í áranna rás er efalaust VW Karmann Ghia Cabriolet á árunum 1957 til 1974.

http://www.fib.is/myndir/VW_karmann-ghia.jpg
VW Karmann Ghia. Byggður af Karmann og teiknaður af Ghia fyrir
Volkswagen. Framleiddur á árunumum 1957-1974.

Karmann rataði í mikla erfiðleika þegar yfirstandandi kreppa í bílaiðnaði heimsins hófst. Fyrirtækið fór í þrot en þrotabúið hefur verið rekið áfram í þeirri von að kaupandi finnist – og nú er hann fundinn.

Á föstudaginn var tilkynnti bústjórinn Ottmar Hermann að kaupandi væri fundinn; Valmet Automotive í Finnlandi. Valmet tekur við rekstri þeirrar deildar Karmann sem enn smíðar opnanlega toppa á bíla og þar með bjargast störf 350 starfsmanna í Osnabrück og 396 störf í Zary í Póllandi. Áður hafði Volkswagen keypt hús og tæki af þrotabúi Karmann í Osnabruck og þar á senn að hefjast framleiðsla á VW Golf blæjubíl.

Yfirtaka Valmet er háð samþykki samkeppnisstjórnar Þýskalands. Reiknað er með því að þýska samkeppnisstjórnin samþykki kaupin en hún hafnaði á sínum tíma því að Magna í Austurríki yfirtæki Karmann því það hefði þýtt að nánast öll framleiðsla á opnanlegum toppum á sportbíla yrði á einni hendi í Evrópu.

Valmet í Finnlandi nýtur mikils álits í bílageiranum fyrir vönduð vinnubrögð og svo virðist sem Karmann muni hafa nóg fyrir stafni á næstunni þegar fyrirtækið fer undir yfirstjórn Valmet. Volkswagen samsteypan hefur þegar pantað framleiðslu á opnanlegum toppi á hinn nýja Audi A3 og áður hafa verið gerðir samningar um hönnun og gerð opnanlegra toppa á bíla frá Mercedes, BMW, Renault og Bentley sem flytjast nú til hins nýja Valmet hlutafélags um Karmann.

Höfuðstöðvar Valmet eru í Nystad í finnlandi. Fyrirtækið varð til árið 1951 þegar finnska ríkið sameinaði nokkrar verksmiðjur í því skyni að auðvelda greiðslu stríðsskaðabóta til Sovétríkjanna. Árið 1968 var Saab-Valmet til, sem nú heitir Valmet Automotive, en upphaflegi tilgangurinn var að fjöldaframleiða Saab 96 bíla. Valmet hefur um langt skeið framleitt Porsche Boxter og Cayman sportbíla en framleiðir nú rafmagnsbílinn Fisker Karma sem væntanlegur er á Bandaríkjamarkað fljótlega.