Vandinn fluttur úr landi

Vegna hertra umhverfisverndarreglna í Bandaríkjunum eru ónýtir bílarafgeymar í mjög miklum og vaxandi mæli sendir til Mexíkó til endurvinnslu. Þetta gerist vegna þess að mengunarvarnareglur eru mun vægari og endurvinnslan miklu ódýrari (og frumstæðari) í Mexíkó en í Bandaríkjunum sjálfum. Endurvinnsluaðferðirnar í Mexíkó eru langt utan þess sem löglegt gæti talist í USA og mun grófari. Mikil og slæm mengun er því fylgifiskur þessa endurvinnsluiðnaðar í Mexíkó. New York Times greinir frá þessu og nefnir dæmi um að á lóð barnaskóla í næsta nágrenni við slíka endurvinnslustöð hafi mælst mjög mikil blýmengun – fimmfalt yfir heilsumörkum. Þessi starfsemi sé tekin að ógna heilsu og lífi bæði verkamanna og nágranna rafgeymaendurvinnslustöðvanna að sögn blaðsins.

Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna hefur ekki fyrir svo löngu hert mjög reglur um meðferð ónýtra bílarafgeyma. Reglurnar hafa leitt til þess að endurvinnslukostnaður hefur hækkað mjög  heimafyrir. Þær banna hins vegar ekki að vandinn sé fluttur til annarra landa þangað sem bæði reglur eru mun vægari og eftirlit lítið sem ekkert.  Um það bil 20 prósent ónýtra blýgeyma í USA eru nú fluttir til Mexíkó. Fyrir aðeins fjórum árum var þetta hlutfall einungis 6 prósent.

Um það bil 20 kíló af blýi nást úr hverjum rafgeymi að meðaltali. Gömlu geymarnir eru brotnir sundur og blýsellurnar í þeim bræddar. Blýið fer síðan  í mulningsvélar sem mala það í duft. Í Bandaríkjunum fer þessi vinnsla fram í rækilega einangruðum loftþéttum byggingum og þess vandlega gætt að hvorki blý né önnur skaðleg efni berist út í umhverfið. Í Mexíkó er einskis slíks gætt. Verkamenn brjóta geymana með slaghömrum, bræða og mala blýið síðan og koma duftinu í flutningsumbúðir. Þetta fer þar fram í óþéttum hálfopnum eða opnum skemmum þannig að mengun frá þessari starfsemi þykir mjög veruleg..