Vanrækslugjald!

http://www.fib.is/myndir/Bildrusla.jpg

Þann 1. apríl hefst álagning vanrækslugjalds á bíla sem ekki hefur verið farið með í skoðun í tæka tíð og komnir eru hálft ár framyfir skoðunarmánuð. Gjaldið er 15.000 krónur en sé farið með bílinn í skoðun og gjaldið greitt innan mánaðar frá því að bíleigandi fær rukkunarbréf, lækkar upphæðin um helming og „aðeins“ þarf að grgeiða 7.500 krónur.

Álagning þessa nýja gjalds nær til bíla sem ekki var mætt með í aðalskoðun eftir 1. október 2008 og hefst hún þann 1. apríl sem fyrr segir. Þá leggst vanrækslugjaldið á ökutæki sem eru með 0 og 1 sem endastaf í skráningarnúmeri og áttu því með réttu að koma tll skoðunar í október og nóvember. Síðan gengur þetta fram frá mánuði til mánaðar þannnig að 1. maí verður gjaldið lagt á óskoðaða bíla með 2 sem endastaf og 1. júní á bíla með 3 sem endastaf, o.s.frv.

Þann 1. ágúst leggst gjaldið á óskoðaða bíla með einkanúmer sem ekki enda á tölustaf, á húsbíla, fornbíla og mótorhjól, bæði þung og létt, hjólhýsi og tjaldvagna.

Framvegis verður svo vanrækslugjaldið lagt líka á ökutæki sem ekki var mætt með í endurskoðun. Gjaldið leggst á ökutækin mánuði eftir að gefinn frestur til að mæta í endurskoðun rann út.
Tveimur mánuðum eftir álagningu vanrækslugjaldsins hefst innheimta þess ef ekki er búið í millitíðinni að láta skoða bílinn og greiða gjaldið.
Vanrækslugjaldið nýtur lögveðs í ökutækinu þannig að ef ekki er borgað er það einfaldlega boðið upp. Lögveðið fellur ekki niður við eigendaskipti og gengur framar öllum öðrum veðum sem á ökutækinu hvíla.