Varaformaður FÍB dæmir Formúluna um næstu helgi

http://www.fib.is/myndir/OliGumm1.jpg
Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður FÍB verður annar tveggja aðaldómara FIA í Formúlu 1 á Imola brautinni í San Marino á Ítalíu um næstu helgi. Hinn aðaldómarinn verður Tony Scott Andrews. Bein útsending frá keppninni verður í sjónvarpi hér á landi.

Þeir Ólafur og Tony Scott Andrews hafa áður dæmt saman í Formúlunni og er myndin af þeim félögum tekin síðast þegar það gerðist. Saman hafa þeir félagarnir áður dæmt í Formúlukeppni á Silverstone 2002, Monza 2003 og Nurburgring í fyrra. Þetta verður því í fjórða skiptið á Imola nú um helgina sem þeir dæma saman.

Dómarar í Formúlunni verða jafnan að undirbúa sig vel fyrir hverja keppni og verða því að vera mættir tímanlega. Þannig verða FIA dómararnir að vera komnir á staðinn og mættir til vinnu á fimmtudagsmorgni tveimur dögum áður en tímatökur hefjast og þremur dögum fyrir sjálfa keppnina.

Mikill áhugi er hér á landi fyrir Formúlunni og íslenskar ferðaskrifstofur hafa skipulagt hópferðir á einstaka viðburði hennar. Ferðaskrifstofan Ísafold hefur sent út tilkynningu um slíka hópferð á næstunni. Ferðin veður farin á Formúlukappaksturinn á Nürburgring í Þýskalandi helgina 4. - 8 maí n.k. Verðinu er mjög stillt íhóf, kr. 99.000,- á mann ef dvalið er 4 daga en 114.000,- fyrir 5 daga ferð. Miðar á brautina, matur, gisting, akstur, flug og fleira innifalið. Allar frekari upplýsingar má fá á heimasíðu Ísafoldar, http://www.isafoldtravel.is
http://www.fib.is/myndir/OliGumm2.jpg
Ólafur Kr. Guðmundsson ásamt Tony Scott Andrews. Þeir verða aðaldómarar í Formúlunni á Imola um næstu helgi