Varist hægakstur á hraðbrautum Evrópu

http://www.fib.is/myndir/Autobahn_stau.jpg

Óskar Ásgeirsson sendi fréttavef FÍB línu í morgun sem tengist frétt okkar frá 17. júlí sl. Í fréttinni er tafla sem sýnir hámarkshraðamörk í helstu ferðalöndum Íslendinga í Evrópu. Óskar bendir réttilega á að í fréttinni var ekki talað um lágmarkshraða á hraðbrautum álfunnar en of hægur akstur sé líka hættuskapandi og hart á slíku tekið sumsstaðar.

Tölvubréf Óskars er svohljóðandi:
„Ég var að lesa fréttirnar á FÍB vefnum og las þar góða frétt um hámarkshraða í Evrópu frá 17.07.2007 undir fyrirsögninni -Hámarkshraðamörk í helstu ferðalöndum Íslendinga. Þar eru mjög þarflegar leiðbeiningar um hámarkshraða og þá sérstaklega varað við að hámarkshraði í Þýskalandi er alls ekki ótakmarkaður í öllum tilvikum, sem margir virðast misskilja og lenda svo í slæmri klípu. Eitt mjög mikilvægt atriði gleymist í fréttinni, en of hægur akstur er bannaður á hraðbrautum, það er glæpur allstaðar nema kannski Íslandi (allavega eru sektir litlar nema að viðkomandi leggi bifreið sinni þvert fyrir umferð).

Óskar fjallar um þetta efni á heimasíðu sinni www.vtec.is. Þar segir hann að mjög mikilvægt sé fyrir íslenska ökumenn sem eru vanir mjög lágum hámarkshraða að hafa í huga þegar þeir aka erlendis, að þótt þeir komist upp með að halda fyrir aftan sig löngum bílalestum á Íslandi með ofsa hægakstri þá sé það ekki liðið í Evrópu. Hér hafi lögregla mjög takmarkaðar heimildir til að kæra ökumenn fyrir hægakstur enda sektir litlar, auk þess sem öll viðmið vanti eins og við hraðakstur og áróður gegn slíku sé nánast hverfandi. Síðan segir Óskar:

„Ég hef heyrt af tveimur tilvikum þar sem íslenskir ökumenn hafa verið dregnir úr ökutækjum sínum og fengið alvarlegt tiltal af þýskri lögreglu fyrir hægakstur. Það er einfaldlega mjög alvarlegt lögbrot að aka of hægt á hraðbrautum í Þýskalandi þó að það gleymist í kynningunni á FÍB vefnum. Varast ber að lesa kort og vera hikandi við aksturinn sem er algengasta ástæðan fyrir hægakstri Íslendinga erlendis. Enda geri ég ráð fyrir að ökufantarnir sem aka lúshægt hér á landi treysti sér ekki að aka erlendis sökum vanhæfni.

Hægakstursdólgarnir sem hafa fengið griðastað í íslenskri umferðamenningu eru jafn líklegir til að valda tjóni eins og hraðakstursfíklarnir. Þess vegna hafa evrópskir ökumenn og lögregla enga þolinmæði fyrir stoltum íslenskum lestastjórum. Þannig verða ökumenn að hafa bakvið eyrað að varast að aka of hægt eins og of hratt í Evrópu.“