Vatt ehf. hefur sölu á BYD fólksbílum í lok apríl

Vatt ehf. mun í lok apríl hefja sölu á BYD fólksbílum á Íslandi sem er eitt stærsta rafbílamerki í heiminum. Skrifað var undir samninga þessa efnis á aðalskrifstofu BYD í Shenzen í Kína í byrjun vikunnar. Undir samninginn skrifuðu Frank Dunvold, framkvæmdastjóri RSA, og Michael Shu, framkvæmdastjóri BYD Evrópu, af því er fram kemur í tilkynningu.

RSA er norður-evrópskt fyrirtæki á sviði bílainnflutnings til 12 landa. RSA er viðurkenndur dreifingaraðili BYD í Noregi, Finnlandi og Íslandi. RSA er fyrirtæki í einkaeigu og með talsverða sögu sem nær allt aftur til ársins 1936. Með samstarfinu við BYD tekur RSA enn eitt skref inn í framtíð bílamarkaðarins með innleiðingu á 100% rafknúnum ökutækjum BYD af núverandi gerð og framtíðargerðum. RSA hefur nú þegar byggt upp sölunet BYD sem teygir sig yfir öll Norðurlöndin. RSA flytur nú inn BYD fjölskyldu- og atvinnubíla til Noregs, Finnlands og Íslands og BYD atvinnubíla til Svíþjóðar og Danmerkur.  

Í tilkynningu kemur fram að BYD Company Ltd. sé eitt stærsta fyrirtæki í einkaeigu í Kína. Allt frá stofnun 1995 hefur fyrirtækið vaxið hratt á grunni sérþekkingar á endurhlaðanlegum rafhlöðum og sjálfbærri þróun. Starfsemi BYD nær nú yfir fjögur svið, þ.e. bílaframleiðslu, rafeindatækni, orku og járnbrautasamgöngur. Einnig hefur starfsemi BYD á sviði endurnýjanlegra orkulausna vaxið um allan heim og fyrirtækið nú með starfsemi í yfir 70 löndum.  BYD er eini bílaframleiðandi heims sem framleiðir sjálfur rafhlöður sínar, örgjafa, stýrikerfi fyrir rafhlöður og rafmótora.

BYD er stærsti framleiðandi rafknúinna bíla í heiminum. Fyrirtækið er þekkt fyrir nýsköpun á sviði rafhlöðutækni og seldi á heimsvísu 1.862.428 rafknúna bíla árið 2022, sem var aukning upp á 155,1% frá árinu 2021.

Úlfar Hinriksson er framkvæmdastjóri BYD á Íslandi segir að BYD hefur náð eftirtektarverðum árangri í Noreg og allt bendir til þess að merkið muni njóta sömu velgengni á Íslandi.

,,BYD er einn af leiðandi framleiðendum rafknúinna ökutækja í heiminum og með stóra markaðshlutdeild í rafbílum. Fram undan hjá okkur í lok apríl er að kynna þrjá 100% rafknúna fólksbíla frá BYD,“ segir Úlfar. 

Noregur varð fyrir valinu sem fyrsti markaður fyrir BYD fólksbíla í Evrópu á árinu 2021. Strax það ár kom á markaðinn BYD Tang sjö sæta rafbíll. Haustið 2022 sótti BYD inn á fleiri markaði í Evrópu og kynnti þá fyrir Evrópu BYD Atto3 og BYD Han.  

BYD Atto3 er lítill, rafknúinn sportjeppi í gæðaflokki. Hann er fyrsti bíllinn frá BYD sem smíðaður er á nýja undirvagninn e-Platform 3.0. Hann er með nútímalegt og ungæðislegt útlit og er hlaðinn búnaði í staðalgerð. BYD Han er sportlegur fólksbíll í lúxusflokki. Í grunngerð er hann með aldrifi, hlaðinn tæknibúnaði og skilar 509 hestöflum. Bíllinn hraðar sér úr 0-100 km á klst á 3,9 sekúndum. Allar þessar þrjár gerðir verða settar á markað á Íslandi og Finnlandi.