Vaxandi óþol gagnvart umferðarstefnu Reykjavíkur

Óþols er tekið að gæta gagnvart þeirri stefnu sem yfirvöld Reykjavíkurborgar fylgja í málum sem varða samgöngur í borginni. Sú stefna er í stuttu máli sú að þrengja að notendum bifreiða með hverskonar móti, svo sem þrengingum gatna, hraðahindrunum sem víðast, m.a. á stofnbrautum og kæruleysi í viðhaldi og merkingum samgönguleiða. Yfirlýstur tilgangur þessa alls er að draga úr bílaumferð og ýta sem flestum inn í strætisvagna og upp á hjólhesta.

Þessa hefur víða séð stað, t.d. á Hofsvallagötu, Snorrabraut, Borgartúni og miklu víðar og áður en framkvæmdir hafa byrjað hefur sjaldnast verið haft fyrir því að kanna fyrst vilja íbúa og notenda samgöngukerfisins né að neins konar kannanir á flæði mismunandi tegunda umferðar hafi verið gerðar. Og þótt látið sé í veðri vaka að steinar í götu almennrar bílaumferðar séu mjög í þágu greiðari umferðar lögreglu, slökkviliðs, sjúkraflutninga sem og almenningsvagna og hjólandi, þá hafa framan nefndir aðilar, aðrir en reiðhjólafólk, sjaldan ef nokkru sinni verið inntir álits. Það hefur FÍB fengið staðfest. Þvert á móti telja slökkvilið, lögregla og sjúkraflutningafólk og strætisvagnabílstjórar  að hraðahindranafaraldurinn í borginni hafi valdið auknum töfum og lengt aksturs- og viðbragðstíma. Þá hefur Félag ísl. bifreiðaeigenda heldur aldrei verið spurt álits eða boðuð til funda með skipulags- og borgaryfirvöldum vegna samgöngumála. Það hafa hins vegar samtök reiðhjólafólks verið.

Sívaxandi óþol almennings er gagnvart þessari umferðarstefnu borgaryfirvalda. Það endurspeglast vel í því að Hverfisráð Grafarvogs hefur nú riðið á vaðið og sett saman þverpólitíska nefnd sem birt hefur ágæta skýrslu um umferðaröryggi í hverfinu. Nefndin kannaði ástand gatna og vega um þetta víðlenda hverfi og birtir niðurstöður sínar í og tillögur til úrbóta í skýrslunni. Athyglisvert er að nefndin er raunverulega þverpólitísk. Í henni eiga sæti tulltrúi frá Íbúasamtökum Grafarvogs, varafulltrúi Sjálfstæðisflokksins í hverfaráðinu og umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar, fulltrúi Samfylkingarinnar í hverfisráði Grafarvogs og fulltrúi Bryggjuráðs. FÍB hvetur önnur hverfasamtök aðkanna þessi mál í sínum hverfum á svipaðan hátt..