Vegaaðstoð á rafmagnsreiðhjólum

Vegaaðstoð hins austurríska systurfélags FÍB ÖAMTC, hefur bætt rafmagnsreiðhjólum í ökutækja- og verkfæraflota sinn um sumartímann. Fyrir eru í flotanum fólks- og sendibílar og dráttarbílar. Í frétt frá ÖAMTC segir að stöðugt sé leitað leiða til að bæta þjónustuna við félagsmenn þegar þeir ferðast eða eða bara skjótast milli húsa óháð því hvernig þeir ferðast. Á rafhjólunum geti vegaþjónustumenn veitt þeim öllum fljóta og góða þjónustu hvort sem þeir eru á bíl, á vélhjóli eða reiðhjóli. „Þetta er vegaaðstoð sem er einstök og sú fyrsta í heiminum sem sögur fara af,“ segir Oliver Schmerold framkvæmdastjóri ÖAMTC.

Vegaþjónustuhjólin eru rafknúin og aftan í þau er fest lítil kerra með nauðsynlegum verkfærum, tækjum og varahlutum sem gera það mögulegt að leysa úr vanda vegfarandans. Meðal tækja er ferðatölva til bilanagreininga og til að gefa þjónustumanni upplýsingar um hvað gera skuli, hvaða varahluti þurfi til og hvar sé styst að nálgast þá, auk nauðsynlegra verkfæra. Allt sem í verkfærakerrunni er, var sérstaklega valið út frá nákvæmri greiningu á því hvað það er sem oftast tefur för fólks í stórborgarumferðinni.

Þessi vegaþjónusta hófst í tilraunaskyni í Vínarborg í fyrra og var rekin frá byrjun maímánaðar til septemberloka. Reynslan var það góð að ákveðið hefur verið að halda áfram og efla hana enn frekar. Í sumar verða gerð út fimm rafmagnsreiðhjól á hverri vakt í stað tveggja í fyrra. Hjólin eru af þrenns konar stærð eftir stærð og þyngd þjónustumannanna og eftir því hvers eðlis verkefnin eru hverju sinni. Þessi hjólandi vegaþjónusta verður í sumar veitt alla daga vikunnar og annast hana fimm menn sérhvern dag. Í reiðhjólahópnum í sumar verða samtals 14 vegaþjónustumenn sem skiptast á vöktum.  

Reynslan sýnir ennfremur að viðbragðstími frá því að hjálparbeiðni berst til ÖAMTC og þar til vegaþjónustumaður er kominn á staðinn hefur styst í Vínarborg með tilkomu hjóladeildar vegaþjónustunnar. Á hjólunum er nefnilega hægt að stytta sér leiðir og komast þar sem ófært er bílum og þar sem aldrei myndast umferðartappar. Þá er það heldur aldrei vandamál að leggja hjólunum á þjónustustað eins og gerist með bílana. Í ljós hefur komið að hjólandi aðstoðin getur leyst minnst 75% þeirra vandamála sem sem óskað var eftir hjálp við, með sama hætti og aðstoðarmenn á bíl leystu þau.

Aðstoðarhjólin verða á ferðinni alla daga frá kl 7.30 á morgnana til kl. 10.00 að kvöldi.  Algengur fjöldi aðstoðartilfella á vegaþjónustumann á dag var um 10 en dæmi er um allt að 26 á mann á einum degi. 91% þjónustuþegar voru mjög ánægðir með þjónustuna sem þeir fengu og 81% kvaðst hafa orðið þægilega hissa að sjá hjálpina nálgast á reiðhjóli.