Vegahandbókin 2006 komin út

 http://www.fib.is/myndir/Vegahandb-litil.jpg
Ný, endurbætt og endurskoðuð útgáfa Vegahandbókarinnar er að koma út um þessar mundir. Vegahandbókin kemur út annað hvert ár og verður sífellt viðameiri og ítarlegri handbók ætluð þeim sem ferðast um Ísland. Ytra útlit bókarinnar er nokkuð breytt frá síðustu útgáfu. Bókin er nú í svokölluðu Dutch-bandi og er kápa hennar og band allt sérstaklega styrkt svo hún þoli það vel að velkjast í bílnum eða farangrinum á ferðalaginu um Ísland.

Í þessari nýju útgáfu er mikið af nýju efni sem áhugavert er fyrir ferðafólk. Meðal þess má nefna upptalningu á öllum gistiskálum Ferðafélags Íslands og Útivistar og lýsing á staðsetningu þeirra og staðháttum við þá. Þá er öllum helstu skógum á Íslandi lýst í máli og myndum og sýnt á kortum hvar þeir eru. Ennfremur er sérstakt kort yfir friðlýst svæði á Íslandi og sérstök opna er helguð Snæfellsnesþjóðgarði.
Öll vegakort í bókinni hafa verið endurskoðuð og uppfærð í samræmi við þær breytingar sem gerðar hafa verið á vegakerfinu frá síðustu útgáfu Vegahandbókarinnar. Jafnframt hafa skrár yfir gististaði, sundstaði og hverskonar afþreyingu fyrir ferðafólk verið endurskoðaðar og uppfærðar. Þá er í henni fjöldi nýrra auglýsinga og upplýsinga frá ferðaþjónustuaðilum um allt land.

Megintexti Vegahandbókarinnar byggir enn sem fyrr á upphaflegum texta Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum, náttúruvísindamanns og skólameistara á Akureyri. Með hverri nýrri útgáfu bókarinnar er mikil vinna lögð í að endurskoða og uppfæra  textann ekki síður en annað efni bókarinnar og færa til nútímans í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa í áranna rás.  Mjög hefur ávalt verið vandað til þessara verka og má fullyrða Vegahandbókin er á hverjum tíma eins nærri raunveruleikanum og framast er unnt og svo er einnig nú.

Meðal skemmtilegra nýjunga í bókinni nú má nefna lýsingu í máli og ekki síst myndum á litum íslenskra hesta, kúa og sauðfjár. Þá er sagt frá vitunum allt í kring um landið og fjallað um hvern og einn í máli og myndum. Greint er frá veðurstöðvum í landinu og upplýsingar eru um veðurfar á ýmsum stöðum, um vinda, meðalhita, úrkomu o.fl. Þá er sérstakt veiðikort í bókinni sem sýnir hvar hægt er að komast í veiði og hverskonar veiði.

Skrá er yfir öll pósthús landsins, og sagt frá hvar megi finna söfn – bæði byggðasöfn og útibú Þjóðminjasafns Íslands sem eru mjög víða um land. Sérstaklega er fjallað um hvernig best er að bregðast við  ef náttúruhamfarir dynja yfir. Þá er kort yfir staðsetningu allra heilsugæslu- og lögreglustöðva í landinu og símanúmer þeirra og skrá yfir umboðsmenn og þjónustuaðila FÍB um land allt. Ennfremur er umferðaröryggi gerð skil og leiðbeiningar eru í bókinni um hvernig beri að aka á vegum, ekki síst malarvegum og í lausamöl.

Þar sem Vegahandbókin er eins og nafn hennar raunar segir, handbók – uppflettirit, þá er að finna í henni nýjar og mjög skýrar leiðbeiningar um notkun hennar. Til að auðvelda lesanda að rata um bókina eru einstök landsvæði nú sérstaklega litarmerkt í framkanti til að auðvelt sé að finna það svæði sem sérstaklega á að skoða.  

 http://www.fib.is/myndir/Vegahandb-stor.jpg
Vegahandbókin er 608 blaðsíður. Ritstjóri er Örlygur Hálfdánarson.

Félagsfólk í FÍB fær Vegahandbókina að vanda á sérstökum félagskjörum sem verða nánar auglýst á heimasíðu félagsins, www.fib.is fljótlega.

Litaheiti íslensks búfjár er meðal nýjunga í nýjustu útgáfu Vegahandbókarinnar.

http://www.fib.is/myndir/Hestalitir.jpg http://www.fib.is/myndir/Beljulitir.jpg

http://www.fib.is/myndir/Rollilitir.jpg