Vegaþjónusta FÍB um verslunarmannahelgina 2007

http://www.fib.is/myndir/FIB-adstodarbill.jpg

Um verslunarmannahelgina verða aðstoðarbílar FÍB á ferðinni um land allt og veita félagsmönnum og öðrum vegfarendum aðstoð eins og rúmlega hálfrar aldar hefð er fyrir um þessa mestu ferðahelgi ársins.

FÍB AÐSTOÐ Félags íslenskra bifreiðaeigenda starfar allt árið um kring á helstu þéttbýlissvæðum landsins. En eins og undanfarna rúma hálfa öld er sérstakur viðbúnaður um verslunarmannahelgina, mestu ferðahelgi ársins. Þjónustuvakt verður hjá FÍB um allt land í samvinnu við marga aðila. Þeir sem eiga í vanda geta hringt í þjónustuvaktina hvar sem þeir eru staddir og sér vaktin um að miðla aðstoð til þeirra eftir því sem mögulegt er.

Sólarhringsvakt verður í höfuðstöðvum félagsins auk þess sem starfsmenn og umboðsmenn félagsins verða í stöðugu sambandi við fjölmiðla.

Sími FÍB AÐSTOÐAR er 5 112 112 og sími stjórnstöðvar FÍB er 414 9999. 
Starfsmenn þjónustubíla FÍB veita aðstoð á vegum úti ef t.d. dekk springur eða bíll verður rafmagnslaus. Ef meiri viðgerða gerist þörf, kalla þeir eftir þeirri aðstoð sem nauðsynleg er, t.d. eftir þjónustu dráttarbíla eða verkstæða, útvegun varahluta, aðstoð lögreglu eða sjúkraliðs, - í stuttu máli veitir félagið alla þá aðstoð sem mögulegt er að veita í hverju tilfelli til að fólk komist heilt heim.

Á annan tug þjónustufarartækja FÍB og samstarfsaðila verða á vegum landsins og þéttriðið þjónustunet félagsins verður í viðbragðsstöðu. Auk aðstoðarbíla sem félagið rekur fyrir félagsmenn sína hefur Ingvar Helga-son hf. góðfúslega lánað FÍB-AÐSTOÐ nokkra nýja bíla sem verða eins og þjónustubílar FÍB, sérmerktir og auðþekktir.

Innan þjónustunets FÍB um allt Ísland eru alls um 30 umboðsmenn félagsins og tugir bifreiðaverkstæða og þjónustuaðila sem veita félagsmönnum FÍB forgangsþjónustu. Fyrir atbeina FÍB verður sérstök vakt hjá mörgum þessara aðila. Meðal þeirra eru mörg bifreiðaumboðanna og stærstu varahlutaverslanir landsins sem verða með sérstaka bakvakt. Stjórnstöð FÍB mun annast útvegun varahluta hjá þessum aðilum í neyðartilvikum og koma þeim í réttar hendur eftir því sem við verður komið.

FÍB óskar öllum landsmönnum góðrar og gleðilegrar ferðar um verslunarmannahelgina og á ferðalögum almennt. FÍB hvetur ökumenn til að undirbúa ferðalög sín vel og aka af gætni og ábyrgð.