Vegatollar leysa ekki heimatilbúnar umferðarteppur
FÍB varar eindregið við þeim áformum að fjármagna stóran hluta samgöngusáttmálans með vegatollum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi gjaldtaka hefur ósanngjörn og ruglandi áhrif á verðmat húsnæðis, mismunar fólki eftir búsetu innan sama svæðis og er dæmd til að raska jafnvægi íbúabyggðar og atvinnulífs að því er fram kemur í tilkynningu frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB.
Þær umferðarteppur sem vegatollunum er ætlað að leysa eru heimatilbúnar. Þrengt er að umferð einkabíla á sama tíma og sífellt fleirum er stefnt í miðborg Reykjavíkur. Pólitíkin gengur út að þvinga sem flesta úr einkabílnum yfir í strætó. Þrátt fyrir það hefur lítið verið gert til að bæta strætósamgöngur. Má til dæmis benda á að nýjar sérakreinar fyrir strætó hafa ekki verið lagðar árum saman. Far með strætó hjálpar fáum þegar vagninn er jafn tepptur í umferðinni og önnur ökutæki.
Pólitísk stefnumál ráða því að ekki er farið í fljótvirkustu og ódýrustu lausnirnar á umferðarteppunum, sem er snjallstýring umferðarljósa og mislæg gatnamót.
Hamlandi vegatollar
Miðað við áform samgöngusáttmálans um tekjuöflun með vegatollum getur það kostað fjölskyldu nokkur þúsund krónur á dag að sækja vinnu eða skóla, fara að versla, sækja skemmtanir eða heimsækja ættingja og vini, allt eftir því hvar fólk býr og starfar. Þessi gjaldtaka mun raska daglegu lífi fólks með ófyrirséðum afleiðingum á búsetu og verðmat húsnæðis. Þá er viðbúið að gjaldtökuhlið setji atvinnustarfsemi hér og þar á hliðina þegar fólk veigrar sér við útgjöldin. FÍB áætlar miðað við tekjuáform Betri samgangna að árlegur meðalkostnaður vegna vegatolla verði 70 þúsund krónur á hvern bíl.
Bíllinn er nauðsyn
Það er gild ástæða fyrir hinni miklu notkun einkabílsins hér á landi. Rysjótt og kalt veðurfar, dreift byggðamynstur, mikil atvinnuþátttaka og skortur á þjónustu í nærumhverfinu gerir einkabílinn nauðsynlegan fyrir langflesta. Réttara er því að liðka fyrir umferðinni fremur en tefja.
Ekkert spáð í framtíðina
Samgöngusáttmálinn horfir framhjá því að ferðarþörf almennings er líkleg til að breytast á næstu árum og áratugum. Tækniframfarir með sjálfkeyrandi leigubílum mun draga verulega úr þörfinni fyrir almenningssamgöngur. Stóraukin nærþjónusta styttir leiðir og gerir einkabílinn óþarfan í mörgum tilfellum. Netverslun og sendingaþjónusta dregur úr ferðum. Heimaskrifstofa og fjarkennsla fækkar ferðum til vinnu og skóla.
Tollheimta sem bitnar á tekjulágum
FÍB tekur undir þau meginsjónarmið að fækka umferðartöfum á höfuðborgarsvæðinu. FÍB dregur stórlega í efa að vegatollarnir hafi önnur áhrif en bitna á þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Flest sem nú nota einkabílinn til að komast í og úr vinnu eða skóla gera það vegna þess að þau hafa enga möguleika á að nota strætó, ganga eða hjóla. Áform um víðtæka vegatolla sýna að stjórnvöld vita að bíleigendur eiga enga aðra kosti en láta innheimtuna ganga yfir sig, svo lengi sem þeir hafa ráð á því. Í því felst ekkert jafnræði, þó sumir haldi slíku fram.
Kostnaðarsöm þriðja innheimtuleiðin af umferðinni
Vegatollar eru einstaklega kostnaðarsöm og ómarkviss leið til að hafa tekjur af umferð eða reyna að stýra henni. Vegatollar yrðu þriðja sértæka innheimtuleiðin af bílum og umferð, á eftir kílómetragjaldi og sköttum á eldsneyti. Kílómetragjald er hagkvæmari, sanngjarnari og skynsamlegri kostur, enda leggst það á raunverulega notkun ökutækja, óháð staðsetningu eða tilgangi ferðar.
Rósrauð tálsýn Betri samgangna
Betri samgöngur, sem annast framkvæmd samgöngusáttmálans, teikna upp rósrauða tálsýn af honum. Talað er um aukið valfrelsi í samgöngum sem lykilatriði sáttmálanum, því fleiri eigi þess kost að nýta „hágæða“ almenningssamgöngur. Horft er framhjá þeirri staðreynd að áhuginn á að nota almenningssamgöngur er afar takmarkaður vegna þess að sá ferðamáti hentar fæstum. Hin pólitíska sýn er hins vegar að þvinga þeim ferðamáta upp á fólk og leiðin til þess er heimatilbúnar umferðartafir.