Veggöng undir Fehmernsund

Danska þjóðþingið samþykkti 28. apríl sl. með miklum meirihluta lög, sem heimila að gera veg- og lestartengingu undir Fehmernsundið milli Lálands í Danmörku og Þýskalands. Þingið á þó enn eftir að samþykkja (eða hafna) endanlegri fjárhagsáætlun framkvæmdanna til að þær geti hafist. Þannig getur hátt verð framkvæmdarinnar sem og frekara hik Þjóðverja við að afgreiða málið frá sér, enn tafið það. Þótt allt gangi að óskum héðan í frá er útilokað að framkvæmdir geti hafist fyrr en í fyrsta lagi í vetrarbyrjun.  

Vegtenging Danmerkur og Þýskalands á þessum stað er stærsta einstaka vegaframkvæmdin í sögu Danmerkur og göngin verða lengstu neðansjávargöng í veröldinni – 18 kílómetrar. Í raun verða þetta ekki göng í hefðbundnum skilningi heldur verður steyptum einingum sökkt niður í gríðarmikinn skurð sem grafinn verður í sjávarbotninn. Einingarnar verða svo festar saman neðansjávar. Að því loknu verður svo mokað yfir göngin. Þannig mun sjávarbotninn með tímanum jafna sig þannig að lítil ummerki framkvæmdanna verði sýnileg. Með þessum hætti verða búnar til fjórar gangalengjur; ein fyrir umferð frá Danmörku, önnur til Danmerkur og sú þriðja og fjórða fyrir járbrautarlestar í báðar áttir.

Eins og vænta má verður þetta gríðarlega dýr framkvæmd. Sérstakt byggingafélag sem stofnað hefur verið um verkefnið og heitir það Femern A/S. Samkvæmt fyrstu kostnaðaráætlun þess áttu göngin að kosta 46 milljarða en sú upphæð er nú komin í 55 milljarða (tæpa 1.100 milljarða ísl. kr.). Það þýðir að miðað við áætlaða umferð næstu árin og veggjaldatekjur af henni mun það taka 39 ár að ná inn stofnkostnaðinum.Þær áætlanir miðast við að framkvæmdum ljúki ekki síðar en árið 2024.

Angela Merkel var stödd í opinberri heimsókn í Danmörku 28. apríl, daginn sem þingið samþykkti framkvæmdina. Hún sagðist styðja málið af heilum huga. En ekki er víst að það sé nóg því að nokkur stærstu þýsk samtök umhverfisverndarsinna hafa lagst gegn gangagerðinni enda þótt að göngin muni ekki hafa varanleg áhrif á lífríki Eystrasaltsins einmitt vegna þess hvernig þau verða gerð. Ljóst þykir því að umsagna- og ákvörðunarferlið Þýskalandsmegin geti ernn orðið bæði langsótt og torsótt. Bæði er þýska skriffinskubáknið þungt í vöfum og svo andstaða stærstu umhverfissamtaka landsins sem hafa lagst gegn gangagerðinni, sem enn geta tafið. Nú þegar er búið að skila til þýskra yfirvalda skýrslum upp á samtals ellefu þúsund síður og yfir þrjú þúsund athugasemdir hafa borist þeim og eru flestar þeirra neikvæðar og allt bíður þetta afgreiðslu. Óvissa er því nokkur enn um hvenær framkvæmdir geta hafist.

Leiðin um Fehmernsundið er fjölfarnasta samgönguleiðin milli Danmerkur og Þýskalands. Um sundið milli Rödby og Puttgarden sigla stórar bíla- og lestaferjur dag og nótt og tekur siglingin rétt um klukkustund.