Vegir víða lokaðir vegna veðurs

Vonskuveður hefur gengið yfir landið með snjókomu og hvassviðri nú um helgina. Veðrið hefur haft mikil áhrif á færðina og vegir eru víða lokaðir eða þungfærir. Vegfarendur eru hvattir til að fylgjast vel með veðurspám og kynna sér vel færðina á umferdin.is , upplýsingavef Vegagerðarinnar, ef ferðalög standa fyrir dyrum.

  • Öxnadalsheiði er lokuð vegna veðurs en vonast er til að hægt verði að hefja mokstur strax með morgninum.
  • Holtavörðuheiði og Fróðárheiði eru lokaðar og ólíklegt að hægt verði að opna fyrr en síðar í dag. Vegurinn um Mývatn og Möðrudalsöræfi er lokaður vegna veðurs og verður á óvissustigi fram á mánudagsmorgun.
  • Fólk er beðið um að aka með sérstakri gát um Siglufjarðarveg, en þar er þæfingsfærð eða hálka og mjög slæmt skyggni og einungis fært fjórhjóladrifsbílum. Óvissustig er á veginum og gæti hann lokast með stuttum fyrirvara.
  • Á Steingrímsfjarðarheiði er snjóþekja og skafrenningur og vegurinn á óvissustigi fram á mánudagsmorgun og gæti því lokast með stuttum fyrirvara. Dynjandisheiðin er ófær. Vegurinn um Þröskulda er ófær Hjáleið er um Innstrandarveg.
  • Búið er að opna veginn um Fagradal. Fjarðarheiðin er lokuð vegna veðurs og verður á óvissustigi fram á mánudagsmorgun.
  • Vegurinn um Búlandshöfða á norðanverðu Snæfellsnesi er á óvissustigi vegna snjóflóðahættu og gæti lokast með stuttum fyrirvara. Á sunnanverðu Snæfellsnesi er lokað á Útnesvegi vegna veðurs.
  • Í Öræfasveit er búið er að opna veginn. Enn er frekar hvasst á Skeiðarársandi.
  • Kirkjubæjarklaustur yfir á Freysnes er opið, en vegna hvassviðris er varhugavert að fara um veginn á bílum sem taka á sig mikinn vind. Einnig er talsvert sandfok við Lómagnúp.

Veðrið mun ekki ganga yfir fyrr en í kvöld og biður Vegagerðin vegfarendur um að afla sér upplýsinga um færð og veður áður en lagt er af stað út á vegina. Allar nánari upplýsingar um færð og lokanir eru á umferdin.is .