Veglyklum og afsláttarmiðum er hægt að skila til 14. desember

Greiðsla inneignar, skil veglykla og afsláttarmiða í Hvalfjarðagöngin hefur verið framlengdur til 14. desember. Miklu var skilað í síðustu viku nóvember og síðustu dagana fyrir mánaðarmót var ös á afgreiðslustöðum sem minnti á verslanir á Þorláksmessu. Spölur vill gjarnan sjá fleiri skila og ná þannig í inneignir sínar.

Þess vegna er skilafrestur framlengdur til 14. desember en afgreiðslustöðvum fækkar. Þúsundir erinda bíða afgreiðslu og afar ósennilegt að takist að afgreiða þær allar fyrir jól. Skrifstofa Spalar verður lokuð á milli jóla og nýárs og það sem út af kann að standa verður afgreitt eftir áramót.

Í samningum Spalar við viðskiptavini er ákvæði nr. 6.2 þar sem segir: „Áskrifandi fær endurgreidda innan 30 daga inneign sem hann kann að eiga á viðskiptareikningi sínum.“ Þetta hefur tekist hingað til“ eins og fram kemur í tilkynningu.

Frá því í ágúst hefur Spölur svo tekið fram í kynningu og auglýsingum vegna lokauppgjörs félagsins að  félagið áskilji sér „í einhverjum tilvikum lengri frest en 30 daga til að ljúka uppgjöri vegna þeirra aðstæðna að uppgjörsmálin skipta tugum þúsunda.“

Verulegar líkur eru á því á þetta reyni í desember/janúar, þ.e. að ekki náist að gera upp við alla á 30 dögum en það hefst á endanum.

• Pósturinn:  Hægt að skila veglyklum og afsláttarmiðum í pósti alls staðar af að landinu en munið að prenta út skilagreinar, fylla þær rétt og vandlega út og láta fylgja með.

• N1 Ártúnshöfða, Reykjavík: Einungis veglyklar, EKKI tekið við afsláttarmiðum;

• Olíudreifing ehf. að Hólmaslóð 8-10 í Reykjavík:  Tekið við bæði veglyklum og afsláttarmiðum.

• Skrifstofa Spalar ehf. að Kirkjubraut 28 á Akranesi: Tekið við bæði veglyklum og afsláttarmiðum.