Vegmerkingum ábótavant við Vaðlaheiðargöng

Vegmerkingar við Vaðlaheiðargöng, eða skortur á þeim, hafa sætt nokkurri gagnrýni en við göngin kemur hvergi fram að önnur, gjaldfrjáls leið sé í boði. Fulltrúi Vegagerðarinnar segir að skiltunum verði breytt en Vaðlaheiðargöng hafi átt að leysa Víkurskarð af hólmi og meginreglan sé sú að vísa á stystu og öruggustu leiðina. 

Fram kemur á ruv.is að þegar fólk kemur akandi frá Akureyri kemur það að hringtorgi þar sem það getur valið um að aka veg til Húsavíkur og Egilsstaða í gegnum göngin eða veg til Grenivíkur og Svalbarðsstrandar.

Við seinni beygjuna kemur hins vegar hvergi fram að sú leið leiði fólk líka austur á land, um gjaldfrjálsan veg. Gjaldfrjálsa leiðin er heldur ekki sýnd þegar ekið er að austan.

Málið hefur verið í skoðun hjá Vegagerðinni og hefur verið tekin ákvörðun um að breyta merkingunum. Í sumar verða því sett upp skilti beggja vegna ganganna þar sem gjaldfrjálsa leiðin verður sýnd.

Einar Pálsson hjá Vegagerðinni segir að skiltin séu hugsuð þannig að auðvelt verði að breyta þeim og fjarlægja upplýsingar um leiðina um Víkurskarð ef þörf þykir í vetur. Ekki hafi verið ákveðið hver vetrarþjónusta fyrir skarðið verði en það geti oft reynst varasamur farartálmi á veturna. Meginreglan sé sú að vísa á stystu og öruggustu leiðina þótt til séu dæmi um sumarmerkingar. Í undantekningartilvikum sé vísað á tvær leiðir.

Umfjöllunina á ruv.is má sjá hér.