Vegrið hindraði stórslys?

Miklar umferðartafir urðu sl. föstudag vegna bílveltu á Miklubraut skammt frá rótum Ártúnsbrekku, þar sem afrein er fyrir umferð af Miklubrautinni inn á Reykjanesbraut og áleiðis í Breiðholtið.

Af ummerkjum á slysstað sýnist sem jeppa sem var á leið til austurs eftir akreininni lengst til hægri, hafi skyndilega verið sveigt til vinstri og við það hafi ökumaður tapað stjórn á jeppanum, hann farið stjórnlaust yfir tvær akreinar og rekist loks á vegriðið sem aðgreinir akbrautirnar í austur- og vesturáttir og oltið.

http://www.fib.is/myndir/Vegr-slysst.jpg

Þetta umferðarslys er fyrst og fremst athyglisvert fyrir þá sök að vegriðið milli akbrautanna stöðvaði stjórnlausan jeppann og hindraði að hann æddi yfir á akbrautina til vesturs og inn í umferðina sem kemur niður Ártúnsbrekkuna á minnst 70-80 km hraða. Hefði það gerst hefðu afleiðingarnar orðið skelfilegar. Vegriðið sem um ræðir var sett upp á þessum stað fyrir fáum dögum síðan og segja má að það hafi þarna strax sannað gildi sitt með mjög afgerandi hætti.

Enginn þeirra sem í jeppanum voru slösuðust alvarlega, né heldur aðrir vegfarendur í kring um óhappsbílinn. Eignatjón varð eftir því sem best er vitað ekki á öðru en jeppanum sem valt og á vegriðinu. Beinn kostnaður vegna þessa slyss skiptir vafalaust nokkrum hundruðum þúsunda króna sem eru smámunir hjá því sem hefði getað orðið ef ekkert hefði verið vegriðið. Hefði jeppinn náð að æða stjórnlaus inn í umferðina á móti og stórslys orðið, hefði það auðveldlega orðið margfalt, jafnvel þúsundfalt dýrara, fyrir utan líkamlegar og andlegar þjáningar og hörmungar sem það hefði kallað yfir þá sem í því hefðu lent, sem og fjölskyldur og aðstandendur og samfélagið allt.