Vegstikur og snjóstikur eru um 320 þúsund talsins

 Íslenskt hugvit kom sterklega við sögu við hönnun gulu vegstikanna sem vísa vegfarendum leiðina á þjóðvegum landsins. Stikurnar eru framleiddar á Íslandi, eru endurnýttar eins oft og hægt er og síðan sendar í endurvinnslu. Þetta kemur fram á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Rúmlega 320 þúsund stikur, bæði vegstikur og snjóstikur, standa við þjóðvegi landsins. Það er nálægt því að vera ein stika á hvern Íslending. Á hverju ári eru framleiddar í kringum 25 þúsund vegstikur og nokkur þúsund snjóstikur enda verða alltaf einhver afföll yfir vetrartímann. Þetta er mikil breyting til batnaðar því áður fyrr, þegar notaðar voru tréstikur, þurfti að skipta út nærri öllum vegstikum í vegakerfinu á ári hverju. Í dag er talið að hver stika geti enst í allt að tíu ár.

Björn Ólafsson verkfræðingur, sem starfaði hjá Vegagerðinni í 45 ár, frá árinu 1971 til 2016 og síðustu 25 árin sem forstöðumaður þjónustudeildar, þekkir vel söguna á bak við gulu vegstikurnar, enda var hann einn þeirra sem kom að þróun og hönnun þeirra.

„Tréstikur voru lengi smíðaðar í áhaldahúsum Vegagerðarinnar á veturna. Þær voru sagaðar til, málaðar og sett á þær endurskin. Þetta var stór hluti af vetrarvinnunni enda var vetrarþjónusta á þessum tíma mjög takmörkuð. Þessar tréstikur entust takmarkað, brotnuðu mikið í snjómokstri svo og af völdum annarra álagsþátta eins og vegna ágangs búfjár.