Vegtolla Vilhjálmur

Þingmaður Sunnlendinga, Grindvíkingurinn Vilhjálmur Árnason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis sagði í viðtali í fréttum RÚV í gær 19. júli að hann vildi hefja gjaldtöku á stofnbrautum til og frá höfuðborgarsvæðinu sem fyrst: https://www.ruv.is/frett/2022/07/19/butasaumur-i-samgongum

Vilhjálmur var í viðtali um áform og útfærslu innviðaráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar á gjaldtöku í samgöngum og lagafrumvarp um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða.

Fram kom að þingmaðurinn teldi áform og útfærslu innviðaráðherra á gjaldtöku í samgöngum vera bútasaum og að heildarsýn skorti í þessum efnum. ,,Við vildum sjá … heildstæðari lausn þannig að það sé farið í stofnbrautirnar út frá höfuðborgarsvæðinu og í framhaldinu í öllum göngum …”. Með því væri hægt að efla gjaldtökuna, gjald fyrir stakar ferðir gæti orðið lægra, fleiri borguðu og erlendir gestir borguðu meira.

Þetta eru athyglisverð ummæli frá þingmanni sem vill þegar hefja vegtollatöku af umbjóðendum sínum í Grindavík og í Suðurkjördæmi ef þeir sækja vinnu eða fara eftir þjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Það er gott að vera í þeirri aðstöðu að borga ekki sjálfur tollinn vegna vinnu á Alþingi Íslendinga.