Vélahitarar fyrir kælivökvann enn taldir bestir

Rannsóknastofnun vega og samgöngumála í Svíþjóð (VTI) hefur undanfarið prófað vélahitara sem hita upp vélarolíuna í stað þess að hita upp kælivökvann, eins og algengast hefur verið til þessa.

Meginniðurstöður þessara rannsókna eru þær að vélahitarar sem hita upp kælivökvann eru hagkvæmari því að þeir leiða til minni eldsneytiseyðslu eftir ræsingu í vetrarkuldum heldur en vélahitarar sem hafa hitað upp vélarolíuna.

Köld vélarolía er þykkari en volg eða heit og rennur því tregar um smurganga vélarinnar en upphituð olía. Engu að síður leiðir rannsókn VTI það í ljós að hinir hefðbundnu vélarhitarar sem hita upp kælivatnið áður en vélin er ræst leiða til betri eldsneytisnýtingar og þar með minni eyðslu eftir ræsingu, heldur en olíuhitararnir.

Ef enginn vélarhitari er til staðar verður eldsneytiseyðsla margföld fyrst eftir ræsingu í frosti miðað við vél sem náð hefur fullum vinnsluhita. Vélarhitarar geta því borgað sig tiltölulega fljótt, ekki síst í bílum sem ekið er mest stuttar vegalengdir og ná sjaldnast upp fullum vinnsluhita. En samhliða því að spara verulegt eldsneyti draga vélarhitarar verulega úr losun óæskilegra efna eins og CO2 og annarra mengunarefna út í andrúmsloftið.

Ennfremur stuðla þeir að bættu umferðaröryggi því að bíll með vélarhitara er þegar orðinn heitur, ekki bara vélin heldur líka miðstöðin og innanrýmið, þegar hann er ræstur að morgni og móða og hrím löngu bráðnað af rúðum þegar ekið er af stað.