Vélarnar stækka í BMW 2006

The image “http://www.fib.is/myndir/Bmw760liinnan.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
BMW 760li 2006 að innan.
2006 árgerðirnar af BMW bílum koma fram á sjónarsviðið í haust og verða sýndar á bílasýningunni í Frankfurt í september. Helstu breytingar sem verða frá árgerð þessa árs felst í því að vélar verða aflmeiri í nýju bílunum. Þetta á við allar BMW línurnar.
BMW 1 línan verður fáanleg með nýjum aflmiklum mótor. Með honum nefnist bíllinn 130i. Vélin verður sex strokka línuvél, 265 ha. með 315 Nm vinnslu. Viðbragðið úr kyrrstöðu í hundrað er 6,2 sek. þannig að þetta verður sá sneggsti í smábílaflokknum. Hámarkshraðinn verður 250 km/klst og gæti verið meiri ef rafeindabúnaður stöðvaði ekki hröðunina þar. Þetta tryllitæki verður þekkjanlegt frá öðrum BMW 1 bílum á 17 tommu léttmálmsfelgum, tvöföldu púströri og krómuðum „tönnum“ í grillinu.
BMW 3-línan fær nýjan aflmikinn dísilmótor. Hann er þriggja lítra, 231 ha. með 500 Nm vinnslu sem er ekkert smáræði. Viðbragðið 0-100 er 6,7 sek. og hámarkshraðinn er 250. Eyðslan í þessu mikla orkubúi er hins vegar mjög hófleg eða einungis 6,5 l á hundraðið í blönduðum akstri.
Í ódýrari endanum á 3-línunni er BMW 318d. Dísilvélin í honum er 122 hö með 280 Nm vinnslu. Eyðsla hennar er 5,6 l á hundraðið. Ódýrasti þristurinn verður svo 318i. Hann er með 129 ha. bensínvél og með 180 Nm. vinnslu.
Mesta nýjungin hjá BMW er þó kannski nýtt ABS hemlakerfi og skrensvörn eða stöðugleikakerfi sem bregst við ef aftanívagn eða hjólhýsi aftan í bílunum byrjar að sveiflast og láta illa. Þá má enn nefna að fjórhjóladrif verður fáanlegt í BMW 325i, 330i og 330d – hvort heldur sem þeir eru í stallbaks eða langbaksútgáfu.
BMW 550i er ný ofurgerð í 5 línunni. Vélin er 4,8 lítra V8 bensínvél, 367 hö með 490 Newtonmetra vinnslu. Viðbragðið úr 0 -100 tekur 5,5 sekúndur og hámarkshraðinn er 250 km/h. Meðaleyðslan er 11 l/100 km.
Dísilvélarnar í 5 línunni eru allar nýjar. Grunndísilvélin 520d er 163 ha með 340 Nm og 530d verður með sömu vél og 330d. Hún er 231 ha og 500 Nm. Staðalbúnaður í 5-línunni er aukinn og bættur. Meðal þess sem nú fylgir með í kaupunum er hemlakerfi sem margir muna í Subaru og kallaðist þar Hill-Holder. Kerfið er víðtækara í BMW. Það sér til þess að bíllinn rennur ekki afturábak þegar tekið er af stað upp brekku, það hjálpar við neyðarhemlun og lætur bílinn stöðvast mjúklega við t.d. gatnamót.
Í 6-línunni dettur 645i út og í staðinn kemur 650i sem er sama V8 vélin og í 550i. Loks fæst sérstaklega lengd útgáfa sexunnar nú og nefnist 730Ld.
BMW 745d dísilvélin hefur fengið 30 viðbótarhestöfl og 50 viðbótar-Newtonmetra. Viðbragðið nú er 6,6 sek frá 0-100 og hámarkshraðinn er 250 km. klst.  Eyðslan er uppgefin 9,5 lítrar á hundraðið í blönduðum akstri.
The image “http://www.fib.is/myndir/Bmw760li06.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
BMW 760li árgerð 2006.