Verð á dísilolíu hvergi hærra

Hæsta verð á dísilolíu í heiminum er á Íslandi en verðið er tíu krónum hærra hér á landi en í Noregi. Á Íslandi kostar lítrinn rúmar 200 krónur en í Noregi um 190 krónur. Í umfjöllun um málið í Fréttablaðinu í dag segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, skatta og álagningu á eldsneyti hér á landi of háa.

Þegar verð á bensíni er skoðað er það næsthæst á Íslandi en hæst í Hong Kong samkvæmt vefsíðu Global petrol prices sem kannar verð á eldsneyti í heiminum vikulega.

Runólfur Ólafsson segir Ísland ætíð hafa verið ofarlega á þessum lista en aldrei verið með hæsta eldsneytisverðið í heiminum.

Runólfur segir þessi stöðu ekki fýsilega fyrir Ísland. Verðið sé allt of hátt og orsakirnar sé að finna í opinberum álögum og óhóflegri álagningu olíufélaganna á Íslandi. Skatta þurfi að lækka en einnig hafi komið fram hjá samkeppniseftirlitinu að álagning hér á landi er allt að 20 krónum hærra en í nágrannalöndum okkur.

Umfjöllunina í Fréttablaðinu má sjá hér.