Verð á Mitsubishi i-MiEV lækkar

Miðað við það verð sem talsmenn Mitsubishi í Evrópu hafa fram til þessa talað um fyrir rafmagns-smábílinn iMiEV þá er komið annað hljóð í strokkinn nú. Bíllinn verður ekki eins dýr og áður var sagt.

Mitsubishi iMiEV á að koma á almennan markað í Evrópu í desember nk.  Í Svíþjóð verður verðið samkvæmt því sem nú hefur verið gefið út, ca. 6.175.000,- ísl. kr. miðað við áður útgefið verð á áttundu milljón. Sænskir bílakaupendur munu að líkindum greiða enn minna, því að allt bendir til að ríkisstjórnin ætli að gefa um 650 þúsund ísl. krónur með hverjum rafmagnsbíl þannig að iMiEV mun kosta sænska bílakaupendur ca 5.525.000,- ísl kr. stykkið.

http://www.fib.is/myndir/Mitsubishi_iMiEV3.jpg
Hér sést hvernig rafhlöðurnar eru staðsettar í
bílnum. Mótorinn er aftur í og drífur afturhjólin
http://www.fib.is/myndir/Mitsubishi_iMiEV2.jpg
Líþíum-jónarafhlöðurnar eru 200 kíló og duga
til ca 130 km aksturs

 Mitsubishi iMiEV er fjögurra manna smábíll og hefur um nokkurt árabil verið á heimamarkaði í Japan með bensínmótor auk þess sem allmörg kynningar- og tilraunaeintök hafa verið framleidd á þessu ári og eru tvö þeirra reyndar skráð á Íslandi og eru í eigu og umsjá Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytisins. Þessir tveir bílar eru með hægri handar stýri, en þeir bílar sem koma á markað í Evrópu verða með vinstri handar stýri að undanteknum þeim bílum sem seldir verða í Bretlandi.

 Það hefur lengi verið vitað að fyrstu kynslóðir rafbíla verða ekki ódýrar. Ástæðan er fyrst og fremst líþíumrafgeymarnir. Þeir eru tiltölulega nýir af nálinni, eru enn í þróun og fjöldaframleiðsla varla hafin. En auðvitað blandast samkeppnin inn í þetta líka: Nissan Leaf kemur á Evrópumarkað um svipað leyti og iMiEV auk þess sem Chevrolet Volt/Opel Ampera munu fylgja fast á hæla þeirra. Og ennfremur eru Kínverjar þegar byrjaðir að selja rafknúna fólksbíla á heimamarkaði og geta hvenær sem er gert stórinnrás á Evrópu- og Bandaríkjamarkaði.

 MiEV verður efalítið nokkuð fyrirferðarmikill á Evrópumarkaðinum því að hann verður markaðssettur undir þremur nöfnum; sem Mitsubishi, sem Peugeot iOn og Citroën C-Zero. Fyrir utan smávægilegan mun í útliti og innréttingum er þetta þó allt í grunninn sami bíllinn. Rafmótorinn er 64 hö og 180 Nm. Litiumjónarafhlöðurnar eru 330V og drægið er í kring um 130 km. Hámarkshraðinn er rúmlega 130 km/klst. og viðbragðið er um 15 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið.  Millihröðun úr 60 í 90 km/klst er sex sekúndur.