Verð nýrra bíla og bílavarahluta lækkar

Nýir bílar lækka í verði frá áramótunum þegar virðisaukaskattsprósenta lækkar úr 25,5 í 24 prósent. Morgunblaðið leitaði upplýsinga hjá bílaumboðum um hve mikil lækkunin yrði á ýmsum tegundum og gerðum bíla og greindi frá því í frétt sl. laugardag.

Í fréttinni kemur fram að algengir smábílar munu lækka um þetta 20-40 þúsund krónur en stórir og dýrir bílar um 100-200 þúsund krónur. Lækk­un­in ræðst af því hversu dýr­ir bíl­arn­ir eru. Sem  dæmi má nefna að jepplingurinn Toyota RAV-4 GX bensín, lækkar um 130 þús. kr. og Land Cruiser 150 GX dísil lækkar um 210 þús. kr. Þá lækka vinsælir fólksbílar eins og Skoda Octavia dísil og Volkswagen Golf bensín um 50 þús. kr.

Að mati Fé­lags ís­lenskra bif­reiðaeig­enda (FÍB), má gera ráð fyrir því að lækkun virðisaukaskattsins leiði til um tveggja króna lækkunar á bensínlítranum. Ennfremur ætti VSK-lækkunin og lækkun á vörugjöldum á bílavarahlutum að leiða til þess að verð á þeim lækki umtalsvert. Það ætti væntanlega að leiða til lækkunar bílatryggingaiðgjalda, þar sem tjónaviðgerðakostnaður lækkar.