Verðbreytingar á nýjum bílum eru alls ekki eins allsstaðar

http://www.fib.is/myndir/Suzuki-Grand-Vitara-2006.jpg http://www.fib.is/myndir/Subaru-Forester-2009-.jpg
Suzuki Vitara tv. hefur hækkað um 450 þúsund kr. frá júlí í fyrra. Subaru Forester th. hefur hækkað um tæplega 1,6 milljón kr. frá því fyrir ári.

Morgunblaðið greindi í gær frá miklum hækkunum á verði nýrra bíla. Subaru Forester hefur t.d. hækkað um  rúmlega 1,6 milljónir miðað við sama tíma í fyrra og Skoda Octavia um tæplega 1,6 milljónir. Sagt var frá þessari frétt Morgunblaðsins hér á vefnum í gær. En það hafa ekki nærri allir bílar hækkað svona mikið:

Úlfar Hinriksson framkvæmdastjóri Suzukibíla sagði í samtali við fréttavef FÍB í dag að hjá Suzukibílum væri þeirri stefnu fylgt að velta ekki tímabundnum erfiðleikum bílainnflutningsins af fullum þunga yfir á herðar viðskiptavina. Sumpart kaupi fyrirtækið inn nýja bíla með gengistryggingu en kemur auk þess til móts við viðskiptavini sína með því að gefa að hluta eftir í álagningu þegar gengistryggingin dugar ekki til að vega upp fallandi gengi krónunnar. Hann kvaðst vart geta kvartað undan því hvernig gengi þessa dagana því að sala nýrra bíla í apríl hefði betrri en vænta mætti og ívið betri en á sama tíma í fyrra.

Aðspurður um verð á nýjum Suzukibílum nú og fyrir u.þ.b. ári þá sagði Úlfar að í júlí í fyrrrasumar kostaði venjulegur handskiptur fjögurra dyra Suzuki Swift 1.895 þús. kr. Í dag kostar samskonar nýr bíll 2.190 þús. eða 295 þúsundum meir.

Suzuki SX4 sem er fjórhjóladrifinn fimm manna jepplingur sambærilegur við Subaru Forester kostaði nýr í júlí í fyrra 2.650 þús. kr. m. handskiptingu. Sami bíll kostar í dag 2.990 þús. kr. eða 340 þúsund kr. meir.

Loks kostaði nýr Grand Vitara jeppi 3.390 þús. kr. í júlí í fyrra. Í dag kostar slíkur bíll 3.840 þús. kr. eða 450 þús. kr. meir.

FÍB fylgist reglulega (mánaðarlega) með útsöluverði nýrra bíla. Þegar verð eru skoðuð og borin saman þá kemur í ljós að mjög er misjafnt hvernig umboðin hafa brugðist við. Sem dæmi um þetta má taka t.d. 5 dyra Renault Clio 1,2. Í janúar sl. kostaði þessi bíll 2.090 þús. kr. Í apríl sl. hafði hann hækkað um tæpa milljón og kostaði 3.030 þús. kr. Mismunurinn er 940 þús. kr.

Toyota Corolla 1,4 D-4D kostaði í janúar sl. 3.370 þús. kr. Í apríl sl. kostaði sami bíll 4.980 þús. kr. Mismunurinn er 1.610 þús. kr. Samskonar bíll með 1,6 l vvt-I bensínvél hefur hins vegar ekki hækkað nærri eins mikið. Í janúar kostaði hann 3.090 þús. kr. en í apríl kr. 3.670 þús. kr. eða  580 þús. kr. meir.