Verðhækkunin dregin til baka

Svo sem fram hefur komið á fréttavef FÍB hækkuðu flest olíufélögin verð á eldsneyti fyrir og um liðna helgi.   Aðeins Atlantsolía og Orkan höfðu ekki hækkað um helgina.  Nú fyrir hádegi í dag hækkaði síðan Atlantsolía lítraverðið á bensíni og dísilolíu um 1,50 krónur og rétt á eftir hækkaði Orkan um sömu upphæð.  Þessi hækkun var 50 aurum undir hækkuninni hjá hinum olíufélögunum.  Í kjölfarið var verðið lækkað um 50 aura hjá Ego og ÓB.  

Ekki leið á löngu áður en nýjar verðbreytingar litu dagsins ljós.  N1 lækkaði lítraverðið á bensíni og dísilolíu um 2 krónur á sínum útsölustöðvum og í kjölfarið lækkuðu Olís, Egó, ÓB, Orkan og Shell sín verð til samræmis við N1. 

Það er ánægjulegt að málefnalegar ábendingar FÍB hafa orsakað það að olíufélögin hafa séð að sér og látið tilhæfulausar hækkanir ganga til baka. 

Hækkun bílaeldsneytis um 2 krónur á lítra kostar íslenska neytendur um 2 milljónir á dag.