Verðsamráð í bílaíhlutum
Reuters fréttastofan greinir frá því í morgun að Bandaríkjadeild sænska bílaíhlutaframleiðandans Autoliv hafi gerst sek um verðsamráð og samkeppnishamlandi starfsemi á Bandaríkjamarkaði í því skyni að halda uppi verði. Þetta var gert með því að Autoliv í Bandaríkjunum hafði samráð við dótturfélag sitt í Japan um að halda uppi hæsta mögulega verði framleiðsluvara. Autoliv er mjög stórt í framleiðslu öryggisbúnaðar í bíla og framleiðir m.a. öryggisbelti, loftpúða og stýrishjól. Reuters hefur eftir bandaríska dómsmálaráðuneytinu í Washington að forráðamenn Autoliv hafi samþykkt að viðurkenna sök og greiða 14,5 miljón dollara dómsátt fyrir brot sín.
Fimm önnur fyrirtæki í sama geira hafa jafnframt verið fundin sek um svipað athæfi og Autoliv. Þau eru Fujikura Ltd, Furukawa Electric Co Ltd , Denso Corp, Yazaki Corp and G.S. Electech. Jafnframt hefur forstjóri Yazaki Group; Kazuhiko Kashimoto fallist á að sitja inni í 14 mánuði og greiða einnig 20.000 dollara sekt. Hann er 10 maðurinn í bílhlutageiranum í Bandaríkjunum sem fundinn hefur verið sekur um glæpsamlegt verðsamráð í Bandaríkjunum síðustu mánuðina.
Málið er ekki stjórnendum Autoliv í höfuðstöðvunum í Svíþjóð að skapi. Forstjórinn, sem heitir Jan Carlson, segir að það sé alger ósvinna að Autoliv skuli hafa þvælst út í þetta fen og hjá sér og stjórninni í Svíþjóð hafi það verið algert forgangsmál að vinna af heilindum með bandaríska dómsmálaráðuneytinu að því að upplýsa alla þætti þess eins fljótt og vel og kostur var.
English
Gerast Félagi
Eldsneytisvaktin

