Verður Land Rover að Range Rover?

http://www.fib.is/myndir/Freelander.jpg
Freelander 2007.

Út frá markaðslegum forsendum kann það að vera heppilegra að heita Range Rover frekar heldur en Land Rover. Að þessari niðurstöðu hafa þeir sem stjórna markaðsmálum ofannefndra bílategunda komist og vilja gefa nýja Freelander jepplingnum nýtt nafn og kalla hann framvegis Range Rover en ekki lengur Land Rover.

Lokaákvörðun um þetta verður tekin fljótlega. Samkvæmt frétt Auto Motor & Sport verður mun Freelander þó áfram kallast Land Rover á vissum markaðssvæðum innan gamla breska heimsveldisins þar sem það nafn lifir enn sterklega í vitund fólks. Víða annarsstaðar, eins og t.d. á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum fylgir ekkert sérstakt ímyndarforskot nafninu Land Rover en Range Rover stendur hins vegar fyrir gæði og lúxus. Markaðsfólkið telur að Range Rover nafnið muni styrkja stöðu nýja Freelandersins í harðri samkeppni við aðra sambærilega bíla.

Land Rover menn telja að nýi Freelanderinn sé í hópi þeirra albestu í sínum flokki og nafnbreytingin yfir í Range Rover muni styrkja gæðaímyndina betur. Bæði Range Rover og Land Rover eru nú hluti af PAG-Group sem er eign Ford Motor Company. Volvo í Svíþjóð er einnig hluti PAG og þegar rýnt er í innviði nýja Freelandersins kemur í ljós að stór hluti tæknibúnaðar bílsins er sá sami og er í hinum nýja Volvo XC60. Til dæmis eru Volvo mótorar í Freelandernum og einnig er sama Haldex- fjórhjóladriftengingin í honum og í sídrifnum fjórhjóladrifsbílum Volvo.