Verður Rover kínverskur eftir allt saman?

The image “http://www.fib.is/myndir/Rover75coupe.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Auto Motor & Sport segir frá því í dag að horfur séu á því að kínverska bílaframleiðslu- og ríkisfyrirtækið SAIC sé líklega að eignast verksmiðjur MG-Rover sem fóru á hausinn fyrr í sumar.
SAIC er stærsta bílaframleiðslufyrirtækið í Kína. Það var í samstarfi við MG-Rover og lengi bundu Bretar vonir við að SAIC legði nægar fúlgur fjár í MG-Rover til að bjarga því frá gjaldþroti. Það gerði SAIC hins vegar ekki og framleiðslan stöðvaðist í Longbridge á Norður-Englandi.
Nú er SAIC komið í samstarf við breskt fjárfestingafyrirtæki sem heitir Magma Holdings Ltd og nú eru horfur á því að fyrirtækin yfirtaki verksmiðjurnar í Longbridge og að bílaframleiðsla hefjist þar á ný og nýjar bílgerðir séu í sjónmáli. Kannski að MG-Rover sé ekki alveg dauður eftir alltsaman og endurfæðist innan tíðar - kínverskur.