Verið að ryðja húsagötur

Starfsfólk vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar heldur áfram að vinna við að hreinsa götur og stíga borgarinnar af snjó. Unnið hefur verið í húsagötum eftir því sem liðið hefur á vikuna en þær klárast á næstu dögum.

Vinnan er ekki auðveld því snjórinn er mjög mikill og þungur, sérstaklega í austurborginni, og hafa vélar jafnvel bilað út af miklu álagi.

Til að átta sig á umfangi verksins er vegakerfið í Reykjavík 1200 km sem verið er að ryðja en það er hátt í allur hringvegurinn. Þar af eru húsagötur 240 km sem er um það bil leiðin á milli Reykjavíkur og Blönduóss.  Í stígakerfinu er verið að snjóhreinsa í kringum 600 km sem er svipað og vegalengdin til Raufarhafnar.

Mjög margar ábendingar hafa borist vegna snjómoksturs og varða margar þeirra húsagötur sem verið er að vinna í núna og næstu daga.