Verkefnið ,,Allir vinna" útvíkkað

Á dögunum voru samþykkt lög á Alþingi um aðgerðir stjórnvalda til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Bílgreinasambandið og Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, fagnar þeirri ákvörðun stjórnvalda að útvíkka verkefnið "Allir vinna". Nú býðst eigendum fólksbíla, utan rekstrar, 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti þess sem þeir hafa greitt af vinnu vegna bílaviðgerðar, bílamálningar og/eða bílaréttingar fólksbifreiða. 

Árið 2010 hleyptu stjórnvöld af stokkunum átakinu "Allir vinna" til að vekja athygli á endurgreiðslu virðisaukaskatts og skattafrádrætti vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði og frístundahús. Átakið þótti gefast vel því verulega dró úr atvinnuleysi og svartri atvinnustarfsemi.

Með því að taka tillit til viðhalds og viðgerða fólksbifreiða er bílgreinin afar þakklát stjórnvöldum fyrir þann skilning og stuðning sem þeir veita. Yfir 4000 einstaklingar starfa í bílgreinum á Íslandi og er þetta skref að tryggja færri uppsagnir í greininni á meðan við erum að komast í gegnum þá erfiðleika sem þjóðfélagið á í baráttu við. Það er von Bílgreinasambandsins að bílgreinin verði því fyrir minna höggi en raunin var eftir árið 2008.

Allir vinna

Í aðgerðaráætlun stjórnvalda sem kynnt var í Hörpu laugardaginn 21. mars kom fram að allir íbúar á Íslandi eldri en 18 ára fái stafrænt gjafabréf til að ferðast innanlands. Markmið þeirra er að auka ferðalög um landið og styðja þannig við innlenda eftirspurn. Það er Bílgreinasambandinu og Félagi íslenkra bifreiðaeigenda, FÍB, mikið hjartans mál að einstaklingar ferðist um á öruggum ökutækjum um landið okkar. Í því samhengi teljum við það gríðarlega mikilvægt að áður en þjóðin ferðast um landið í sumar að þeir aðilar sem munu yfirfara ökutækin fyrir ferðalagið séu með rétta menntun, búnað og varahluti til að tryggja öryggi.

Með því að bílgreinar fái að taka þátt í verkefninu "Allir vinna" er verið að sporna gegn því að viðgerðir og viðhald ökutækja fari fram í svörtu hagkerfi og tryggja einstaklingum áframhaldandi vinnu á bílaverkstæðum landsins næstu mánuðina. Eigendur fólksbíla eru því hvattir til að sinna viðhaldi ökutækja.

Allir vinna – endurgreiðsla virðisaukaskatts sjá nánar