Verkfall hafið hjá Chrysler

http://www.fib.is/myndir/Chrysler-logo.jpg
Samningaviðræður milli Chrysler LLC og UAW - launþegasambands bandaríska bílaiðnaðarins sigldu í strand fyrr í dag og fljótlega  eftir það tóku samtals um 49 þúsund starfsmenn bílaverksmiðja Chryslers víða um Bandaríkin að leggja niður vinnu og tínast heim.

Starfsmennirnir 49 þúsund starfa í 31 starfsstöð Chryslersí Bandaríkjunum, bæði verksmiðjum og þróunar og hönnunarstöðvum. Búist er við að verkfallið nái einnig til þriggja verksmiðja fyrirtækisins í Kanada á næsta sólarhringnum. Ef starfsemin í Kanada lamast mun það bitna á framleiðslu nýs fjölnotabíls sem framleiðsla er nýhafin á. Þessi nýi fjölnotabíll er byggður í Windsor verksmiðju Chryslers í Ontario í Kanada.

Ef deilan leysist fljótlega eða innan tveggja vikna þá mun verkfallið ekki koma sérstaklega hart niður á fyrirtækinu að öðru leyti, því að miklar birgðir eru nú til af þokkalegum sölubílum eins og Dodge Ram og Chrysler Sebring.

Kjaradeilan snýst fyrst og fremst um það að starfsmenn vilja samskonar samninga við Chrysler og tekist hafa við General Motors. Þeir snúast fyrst og fremst um greiðslu sjúkra- og lækningakostnaðar starfsmanna. UAW krefst þess að Chrysler leggi fram 10-11 milljarða dollara í nýtt sjúkrasamlag starfsmanna. Því hefur stjórn Chryslers harðneitað.