Verklagskerfi úr bílaframleiðslu styttir danska sjúkrabiðlista

The image “http://www.fib.is/myndir/CTIScanning.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
LEAN kerfi Toyota eykur afköst danskra sjúkrahúsa við sneiðmyndatökur um 35%.
Sjúkrahús á Norður Sjálandi í Danmörku eru um þessar mundir að skipuleggja vinnubrögð sín samkvæmt aðferðum sem notaðar eru í bílaframleiðslu Toyota. Hjá sjúkrahúsinu í Helsingør hefur hið nýja skipulag skilað 35% auknum afköstum við sneiðmyndatökur. Áður en nýja vinnuskipulagið úr bílaframleiðslunni var tekið upp var fimm vikna bið eftir að komast í sneiðmyndatöku en í dag þarf einungis að bíða í sjö daga. Berlingske Tidende greinir frá þessu í dag.
Um er að ræða sneiðmyndatökur til að greina skemmdir í líkama sjúklinga af völdum sjúkdóma eins og t.d. Krabbameina, Alzheimer, hjarta- og æðabilanir o.fl. og gera lækningar á þessum skemmdum markvissari.
Sneiðmyndatökurnar hafa verið slæmur flöskuháls í dönsku heilbrigðisþjónustunni og háværar kröfur uppi um að fara út í milljarða fjárfestingar í nýjum og miklu fleiri sneiðmyndatækjum. Nýtt og skilvirkara verklag og meðfylgjandi betri nýting á tækjabúnaði og mannafla þykir hins vegar nú í ljósi reynslunnar vera líklegt til að ekki þurfi að leggja út í eins mikinn fjárfestingakostnað og áður var talið.
Þetta nýja vinnukerfi sem dönsku sjúkrahúsin hafa sótt í smiðju Toyota kallast LEAN. Markmið þess er að eyða öllum dauðum tíma í framleiðsluferlinu. Þegar það var innleitt við sneiðmyndatökurnar var byrjað á því að skrá allan tíma sem fór í sneiðmyndatökuna allt frá því að heimilislæknir skoðar sjúklinginn og skrifar tilvísun til sérfræðings sem skoðar sjúklinginn og pantar svo myndatökuna, sjúklingurinn mætir á myndatökustaðinn, er skráður inn, hversu lengi hann svo þarf að bíða þar til sjálf myndatakan hefst, o.s.frv. Þessi athugun leiddi í ljós að í öllu þessu ferli voru 35 verkeiningar með mislöngum dauðum tímum á milli.
Eftir að LEAN kerfið er komið á eru verkeiningarnar í ferlinu öllu frá því að sjúklingurinn leitar læknis og þar til búið er að taka sneiðmyndirnar orðnar 21 og dauðir tímar í milli verkeininga miklu styttri en áður. Í stað 10-15 eyðublaða sem útfylla þurfti áður þarf nú aðeins að útfylla eitt og mun færra heilbrigðisstarfsfólk kemur að málinu en áður.