Bíllyklar - fróðleikur

Bíllyklar hafa lengi verið sjálfsagður þáttur í daglegu lífi flestra. Þegar bíllyklar svo glatast kemur í ljós hversu mikilvægir þeir eru og hve vandasamt það er og dýrt að verða sér úti um nýja lykla að heimilisbílnum. Lyklarnir eru nefnilega ekki lengur bara lyklar sem ganga að hurðaskrám og kveikilás bílsins, heldur mikið meira en það.

Vissulega ganga lyklarnir enn að hurðalæsingum og kveikilás bílsins. En nútímabílum fylgja ekki bara lyklar heldur líka fjarstýring til að opna og læsa bílnum. Fjarstýringin er nú orðið oftast innbyggð í lykilinn. Ennfremur er innbyggð í lykilinn örsmá, forritanleg  kísilflaga. Allur þessi rafeindabúnaður í bíllyklinum þýðir það að bíllyklar nútímans eru miklu viðkvæmari og þola ekki harkalega meðferð jafn vel og húslyklarnir. Bíllyklum ætti því aldrei að kasta frá sér, Það verður að gæta þeirra vel, forðast að missa þá niður í gólfið eða leyfa börnum að leika sér að þeim. Þetta er flókinn, viðkvæmur og dýr rafeindabúnaður eins og sjá má á mynd 1 sem sýnir innviði dæmigerðs bíllykils.

MYND 1 Bíllykill og áföst fjarstýring ásamt innihaldi. Volkswagen t.v. og Mercedes Benz t.h..Mynd NÞ

Flestallir bílar sem framleiddir eru eftir árið 1995 eru búnir ræsivörn. Ræsivörnin er hluti af tölvukerfi bílsins og virkar þannig í stórum dráttum að í lykilhausnum er örsmá kísilflaga. Þessi kísilflaga þarf að vera forrituð á sérstakan og réttan hátt þannig að tölva bílsins og lykillinn “þekki” hvort annað. Ef allt er eins og vera ber í þeim efnum slekkur tölva bílsins á ræsivörninini þegar rétt forritaða lyklinum er stungið í kveikilásinn og bíllinn fer í gang þegar lyklinum er snúið í kveikilásnum. Þessi kísilflaga  er yfirleitt alls óháð fjarstýringunni.

Fjarstýringin virkar einvörðungu fyrir hurðalæsingar bílsins nema í örfáum undantekningartilfellum.

Þessar kísilflögur í bíllyklum eru þannig verulegt öryggismál. Það er nefnilega vel hugsanlegt að eins og sama fjarstýringin geti opnað fleiri en einn bíl og dæmi eru um að bílaþjófar geti numið og tekið upp útvarpsbylgjurnar frá fjarstýringum bíla þegar fólk læsir þeim á bílastæði. Með því að taka upp merkið geta þeir nýtt sér það síðar til að opna bílinn þegar eigandinn er horfinn úr augsýn. En ef þjófurinn ætlar síðan að ræsa bílinn með einhverskonar þjófalykli þá á það ekki að ganga. Bíllinn á einfaldlega ekki að geta farið í gang nema þjófalykillinn sé með rétt forritaðri kísilflögu sem segir tölvu bílsins að slökkva á ræsivörninni og það er frekar ólíklegt að svo sé.  Mynd 2 sýnir bíllykil með áfastri fjarstýringu, en þær geta einnig verið lausar.

MYND 2 Dæmigerður bíllykill með áfastri fjarstýringu. Mynd NÞ.

Fjarstýringar eru vissulega ágæt og handhæg hjálpartæki sem opna læsa öllum hurðum bílsins í einu. En þær þýða líka það að læsingar bílsins eru lítið sem ekkert notaðar og geta því gróið fastar. Þegar rafhlaða fjarstýringarinnar tæmist getur fólk því ekki opnað bílinn á gamla mátann þar sem læsingin er gróin föst. Til að losna við slík óþægindi er ágætt að smyrja læsinguna einu sinni í mánuði og snúa með lykli (óþarfi er að sprauta í svissinn). Ef læsing aftur á móti frýs á veturna má sprauta ísvara í læsinguna, hinkra andartak og sprauta síðan olíu á eftir (ísvarinn eyðir olíunni sem er í læsingunni).

Eins og með flesta hluta bílsins, bremsur o.þ.h. þarf að skipta um þá reglulega. Ekki er því óeðlilegt að skipta þurfi um kveikilás og læsingar notaðs bíls, því slíkt slitnar með tímanum. Fólki hættir t.d. til að hengja stóra lyklakippu á bíllyklana en það ber að varast þar sem þá myndast skakkt álag á kveikilásinn sem þá slitnar fyrr en ella eða að lykillinn hreinlega brotnar í kveikilásnum.

Ef bíllykill týnist eða eyðileggst getur það orðið talsvert dýrt og fyrirhafnarsamt að fá nýjan lykil. FÍB gerði verðkönnun í fyrra á kostnaðinum við nýja lykla. Hún leiddi í ljós að frjálsu lásasmíðafyrirtækin voru lang oftast ódýrari en umboðin, þótt á því væru undantekningar eins og Suzuki umboðið.

En ef búa þarf til nýjan bíllykil er ferlið oftast svona:

1  Ökutækjaskrá – skráning bílsins skoðuð.

2  Nýr lykill er skorinn með/án fjarstýringar.

3  Bíllinn er tengdur við tölvu til að para saman nýja lykilinn og bílinn.

4  Í stöku tilfellum getur þurft að flytja bílinn á verkstæði lyklaþjónustufyrirtækis eða umboðs, þar sem tölvan er tekin úr bílnum og upplýsingar handmataðar úr lyklinum í tölvuna (dæmi um bíla sem þessa þarfnast eru Lexus, BMW ofl. teg.).

Flest eða öll lyklaþjónustufyrirtækin í landinu eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Sé bíllinn staðstettur úti á landi dugar oft að gefa lyklaþjónustuaðila upp framleiðslunúmer bílsins og er lykillinn þá skorinn í heimastöð fyrirtækisins og síðan sendur með pósti/flugi. Þá er hægt að opna bílinn. Þvínæst þarf að koma bílnum á næsta þjónustuverkstæði til að láta forrita lykilinn við bílinn.

Óháðu lyklaþjónustufyrirtækin geta útvegað og forritað lykla í langflesta bíla. Bíleigendur skulu ennfremur hafa í huga að skynsamlegast og best er að eiga alltaf fleiri en einn lykil að bílnum því dýrara er að kaupa nýjan lykil ef allir eru týndir.

Félagsmenn FÍB njóta betri kjara af lyklasmíði, ekki síst hjá óháðu lyklaþjónustufyrirtækjunum. Þú getur gerst félagsmaður hér.

http://www.fib.is/myndir/tendneyd.jpg

15% FÍB afsláttur af bílatengdri þjónustu. 

Neyðarþjónustan
Skútuvogi 11, Reykjavík 
Sími 510 8888
Sérhæfing í smíði bíllykla. 
Sérhæfing í viðgerðum á læsingum og opnun bíla.
Opnanir allan sólarhringinn í síma 800-6666. 
www.las.is 


http://www.fib.is/myndir/tendlasatjon.jpg

15% FÍB afsláttur, nema af masterkerfum

Lásaþjónustan ehf
Grensásvegi 16, Reykjavík 
Sími 511 5858
Verslun, verkstæði, lásaviðgerðir, lyklasmíði. Neyðarþjónusta við að opna hús og bíla.s: 800 5858 / 894 5858 
www.lyklasmidur.is