-Versta martröð ykkar er hér!

Johan de Nysschen forstjóri Cadillac sparar ekki stóryrðin þegar hann ávarpar þýska keppinauta sína í framleiðslu ofurbíla á fésbókarsíðu sinni. Þar segir hann m.a: “Hinn hreinræktaði bandaríski ofurbíll er kominn aftur,” segir hann þar.

Nú er að hefjast markaðssetning nýrra og mjög öflugra og hraðskreiðra gerða Cadillac-bíla, svonefndra V-gerða, ekki bara á heimamarkaðinum í Bandaríkjunum heldur líka í Evrópu. Þetta eru hinn nýi Cadillac ATS-V og ný kynslóð CTS-V og forstjórinn er ekkert að halda aftur af sér. Hann segir framannefnda bila setja ný viðmið um ofurbíla og segir siðan: “Við ykkur strákar mínir þarna úti sem dáið þýska bíla segi ég: Versta martröð ykkar er komin. Ég er ekki að tala um hestöfl. Ég er ekki að tala um togkraft. Ég er ekki að tala um viðbragðstíma því þið vitið nú þegar að í þessu er búið að slá ykkur við. Nei, ég er að tala um aksturseiginleika, hemlunareiginleika, stýriseiginleika, stöðugleika. Ég sé ekki betur en það sé komin ný lögga í bæinn – Cadillac V. Hinn hreinræktaði bandaríski ofurbíll er endurborinn.”

Johan de Nysschen, hinn opinmynnti Cadillac-stjóri var áður forstjóri Audi í Bandaríkjunum og ætti því að þekkja vel eiginleika þýskra ofur-fólksbíla. Hann þekkir því væntanlega þann gamla og velþekkta mun á bandarískum og þýskum bílum af þessu tagi, sem fólst í því að þeir bandarísku höfðu lengstum meira afl og sneggri hröðun en þeir þýsku en drógust síðan aftur úr þeim á vegum sem ekki voru þráðbeinir. Ef það er svo að nýju ofur Kadillakkarnir hafi nú slegið öflugustu Benzana, Audi-ana og BMW-ana út í beygjunum þá má segja að það séu nokkur tíðindi orðin.

Það er því ekki bara afl og hraðakstursgeta sem Johan de Nysschen er stoltur af, heldur líka aksturseiginleikarnir. Hann segir að nýju bílarnir séu sérlega léttbyggðir og svo hljóðlátir að vélar- og veghljóð sé nánast ekkert inni í þeim. Þar ríki þögn eins og í bankahvelfingu.