Verstu gatnamót landsins sl. fimm ár eru öll á höfuðborgarsvæðinu

Flest slys með meiðslum eiga sér stað á Hellisheiði og í öðru sæti er Reykjanesbrautin á milli Vatnsleysustrandarvegar og Grindarvíkurvegar.

Ef skoðuð eru slys og óhöpp (meða og án meiðsla) sjáum við að verstu kaflarnir eru sitthvorum megin við Hvalfjarðargöngin. Þar eru mjög stuttir kaflar þar sem þó nokkur óhöpp eiga sér stað. Þetta er það sem kemur m.a. fram í skýrslu um umferðarslys á Íslandi árið 2016.

Ef þessir kaflar eru undanskildir þá er Hringvegurinn vestan við Hellisheiði fram hjá Litlu Kaffistofunni verstur og þar á eftir kemur Hellisheiðin. Verstu gatnamót landsins sl. fimm ár eru öll á höfuðborgarsvæðinu.

Sé litið til slysa með meiðslum eru verstu gatnamótin Miklabraut / Háaleitisbraut og þar á eftir koma Miklabraut / Grensásvegur, Miklabraut / Kringlumýrarbraut og Háaleitsbraut / Bústaðavegur. Ef skoðuð eru slys og óhöpp, með og án meiðsla, eru verstu gatnamótin Miklabraut / Kringlumýrarbraut en þar á eftir koma Miklabraut / Grensásvegur, Miklabraut / Háaleitisbraut og Hringbraut / Njarðargata. Íbúar Suðurnesja lenda í flestum slysum m.v. íbúafjölda, hvort sem litið er til ársins 2016 eða síðustu fimm ára.

Þegar þéttbýlisstaðir eru skoðaðir árið 2016 lenda hins vegar Selfyssingar í flestum slysum en fast á hæla þeirra koma íbúar Reykjanesbæjar. Síðustu fimm árin lenda íbúar Akureyrar, Selfoss og Reykjanesbæjar í flestum slysum m.v. höfðatölu.

Íbúar Egilsstaða lenda í færri slysum en íbúar annarra stórra kaupstaða á landinu árið 2016 en síðustu fimm árin fellur sá heiður Mosfellingum í skaut. Íbúar Ísafjarðar standa sig næstbest á eftir íbúum Egilsstaða en árið 2015 lentu Ísfirðingar í næstflestum slysum m.v. höfðatölu. Nánar má sjá um slys m.v. búsetu í kafla 1.3.6. Slysum af völdum ölvunaraksturs fjölgar talsvert á milli ára.

Ölvunarslysum hafði fækkað nánast árlega frá árinu 2008 og hafði þeim fækkað úr 73 árið 2008 niður í 22 árið 2015. Árið 2016 fjölgar þeim svo aftur upp í 48 sem er meira en tvöföldun á milli ára frá árinu 2015. Af þeim ölvuðu ökumönnum sem olli slysum með meiðslum árið 2016 voru 36 karlar og 12 konur.

Í samgönguáætlun 2011-2022 er að finna umferðaröryggisáætlun og í henni eru sett fram metnaðarfull markmið og undirmarkmið. Ætlunin er að vera í hópi þeirra þjóða sem best standa sig með tilliti til banaslysa í umferðinni en í þeim hópi höfum við verið síðustu ár og ætlum okkur að halda því áfram.

Einnig er ætlunin að fækka alvarlega slösuðum og látnum um fimm prósent á hverju ári á tímabilinu. Til þess að ná fram því markmiði hafa verið sett fram undirmarkmið sem hvert um sig stuðlar að fækkun alvarlegra slysa . Til grundvallar markmiðum um fækkun slasaðra og undirmarkmiðum er meðaltal áranna 2006-2010 og er búið að reikna markmið hvers árs út tímabilið, þ.e. ekki verða markmiðin endurreiknuð á hverju ári út frá gengi ársins á undan.