Verstu innkallanir bílasögunnar

Fréttir af innköllun Toyotabíla sem nú standa yfir hafa verið mjög fyrirferðarmiklar í fjölmiðlum sérstaklega þó bandarískum. Margir freistast því til að draga þá ályktun að um sé að ræða eina stærstu og verstu innköllun bílasögunnar. Því fer þó fjarri. Enda þótt fimm milljón bíla innköllun Toyota í Bandaríkjunum einum sé sannarlega ekkert smámál og hafi undið illilega upp á sig síðan fregnir tóku að berast um bíla sem gáfu sjálfum sér í hvínandi botn fyrirvaralaust, þá er hún „ekki nema“ sjötta stærsta innköllun bíla í Bandaríkjunum. Þá eru mörg dæmi um innkallanir sem reyndust auk þess mun skaðlegri viðkomandi framleiðanda en Toyotamálið er, enn sem komið er í það minnsta. Það er nefnilega alls ekki jafnaðarmerki milli þess hve stór innköllun er og hversu skaðleg hún er fyrir framleiðandann.

Bandaríska tímaritið Popular Mechanics hefur tekið saman lista yfir fimm verstu innkallanir bílasögunnar. Ein sú stærsta er talin vera innköllun hjá Ford árið 1996. Þá voru innkallaðir 7.9 milljón bílar sem byggðir voru á árunum 1988 til 1993 vegna gallaðrar kveikju. Sú innköllun telst þó vart vera sú versta því að rekstrarhagnaður Ford varð 4,4 milljarðar dollara árið 1996 og 6,9 milljarðar 1997.

http://www.fib.is/myndir/Volare-fleet.jpg
Dodge Aspen/Plymouth Volare. Með verst byggðu
bílum sögunnar.

Það er því ekki bein tengsl milli stærðar innköllunar og skaðsemi hennar fyrir framleiðandann. Hvort Toyota innkallanirnar nú eigi eftir að valda Toyota miklum skaða skal því ósagt látið. Tíminn mun leiða það í ljós.

Rekstur Fords stóð með miklum blóma á tíunda áratuginum. Þá kom jeppinn Ford Explorer fram sem seldist eins og heitar lummur en var ódýr í framleiðslu fyrir Ford, ekki síst vegna þess að innviðir hans, undirvagn og gangverk var  að miklu leyti hið sama og í pallbílnum Ford Ranger. En svo seig á ógæfuhliðina.

Ford Explorer var hábyggður bíll með hátt liggjandi þyngdarpunkt, mun hærri en í þeim bílum sem hann leysti af hólmi – bílum sem byggðir voru á undirvögnum fólksbíla. Í ljós kom að í neyðartilvikum hegðaði Explorer sér ólíkt venjulegum langbak – hann var óstöðugri og átti til að velta. Nýir Explorerjeppar voru auk þess afhentir á Firestone dekkjum en dekkin þótti ekki hæfa bílnum, þau gerðu hann ennþá valtari. Veltutilfellunum fjölgaði og árið 2001 greindi dagblaðið Wall Street Journal frá því að yfir 200 dauðsföll væru rakin til tilfella þar sem Explorer bílar höfðu oltið. Í framhaldinu voru Explorer jeppar innkallaðir í dekkjaskipti.

Árið eftir var Explorer (árgerð 2002) svo endurhannaður en skaðinn var skeður. Eftirspurn eftir þessum fyrrum söluhæsta bíl í Bandaríkjunum snarféll og enginn vildi lengur kaupa notaðan Explorer heldur. Á sl. ári þegar bandarískum eigendum eldri eyðsluháka bauðst að fá hátt skilagjald fyrir þá gegn því að kaupa í þeirra stað nýjan sparneytinn bíl þá nýttu gríðarlega margir sér það til að losa sig við gamlan Explorer jeppa. Nú er það komið  í ljós að sex af hverjum tíu bílum sem fólk skilaði inn í þessu átaki voru Ford Explorer jeppar.

Undir lok sjöunda áratugarins  byrjuðu litlir bílar (á bandarískan mælikvarða) frá Japan og Þýskalandi að streyma til Bandaríkjanna  og að ógna veldi risanna þriggja í Detroit, Ford, GM og Chrysler. Chrysler svaraði með því að fara í samstarf við Mitsubishi um Colt/Lancer og Galant sem fengu Chrysler nöfn í Bandaríkjunum og hófu að flytja inn bíl frá eigin verksmiðju í Bretlandi sem nefndist Plymouth Cricket sem þótti reynast mjög illa. GM hóf að framleiða Chevrolet Vega sem aömuleiðis reyndist afleitlega en Ford hóf að framleiða Pinto sem lofaði mjög góðu fyrst í stað. Pinto var ódýr smábíll á bandarískan mælikvarða. Hann var hannaður í miklum fljótheitum og í ljós kom fljótlega að hann hafði mjög alvarlegan galla. Hann var sá að bensíntankurinn í honum var aftan við afturhásingu bílsins og áfyllingarstúturinn var eitt það fyrsta sem brotnaði ef keyrt var aftan á Pinto. Íkveikjuhætta var því mikil við aftanákeyrslur sem átti eftir að sýna sig illilega þegar kvikna tók í bílunum einum af öðrum.

Í innanhússminnisblaði hjá Ford frá þessum tíma kemur í ljós að menn gerðu sér grein fyrir þessum ágalla bílsins þegar á hönnunarstigi og einhver hafði mælt með því að breyta honnuun bílsins þannig að bensíngeymirinn yrði færður fram fyrir afturhásinguna. Það hefði kostað um það bil 11 dollara á hvern bíl í fjöldaframleiðslunni. Niðurstaðan innanhúss hjá Ford varð sú að ódýrara yrði að greiða frekar skaða- og dánarbætur í hugsanlegum slysum og meðfylgjandi brunum en að breyta hönnuninni.

Þessu minnisblaði var lekið til fjölmiðla og afleiðingarnar urðu mjög slæmar fyrir Ford. Ford Pinto hefur alla tíð síðan þótt vera mjög gott dæmi um frámunalega heimskulega áhættugreiningu og –stýringu enda reryndist Pinto/Mercury Bobcat-ævintýrið Fort óskaplega dýrkeypt.

Árið 1978 voru innkallaðir 1.4 milljón Pinto/Mercury Bobcat bílar til þess að setja í þá sérstaka plastplötu til að verja bensíngeyminn í þeim. Um leið varvð Ford að greiða gríðarlegar skaðabætur til aðstandenda þeirra fjölmörgu sem brunnu til bana í þessum bílum eftir aftanákeyrslur.

 Árið 1980 kom GM fram með svokallaða X-bíla. Þetta voru meðalstórir framhjóladrifnir fólksbílar; Buick Skylark, Chevrolet Citation, Oldsmobile Omega og Pontiac Phoenix.  Bílarnir þóttu fallegir og menn héldu margir að loks hefði Detroit tekist að koma fram með bíla sem veitt gætu japönsku og þýsku innrásinni verðuga mótspyrnu. Það reyndist ekki ganga eftir því að þessir X-bílar reyndust illa og eru mest innkölluðu bílar sögunnar.

Í gögnum umferðaröryggisstofnunarinnar NHTSA kemur fram að 1980 árgerðin af Chevrolet Citation var t.d. innkölluð níu sinnum. Gallarnir voru nánast óteljandi eins og t.d. ónýt bensínrör milli tanks og vélar, stýri sem datt úr sambandi og framfjöðrunargormar sem skruppu úr sætum sínum. Margir þessara bíla dvöldu lengri tíma á verkstæðum en í notkun hjá eigendunum. Auk galla sem beinlínis vörðuðu öryggi fólks þá voru bílarnir fullif af allkonar örðum göllum. Þeir voru einfaldlega illa og hroðvirknislega byggðir.

 Um svipað leyti, eða á níunda áratuginum lenti Audi í mjög erfiðum málum með Audi 5000 sem áttu eftir að hafa mjög slæm áhrif á gengi Audi í Bandaríkjunum um langt árabil. Alls voru byggðir 92 þúsund bílar af þessari gerð fyrir Bandaríkjamarkað. Þeir voru innkallaðir vegna hreinna smámála, aðallega þess að gólfmottur gátu skekkst og færst yfir á bensíngjöfina og haldið henni niðri. En þegar þetta var sýnt í fréttaþættinum 60 minutes, hvernig Audi 5000 geystist áfram að því er virtist óviðráðanlega. Síðar kom í ljós að atburðurinn var sviðsettur á þann hátt að hann hefði trúlega alls ekki getað gerst í raunveruleikanum á þann hátt sem sýnt var. En skaðinn varð gríðarlegur á orðspor Audi sem átti sér ekki viðreisnar von í Bandaríkjunum um mörg þá ókomin ár.  Sala á Audi hrapaði úr 74 þúsund bílum niður í tæplega 12.300 bíla á einu ári.  Merkið náði sér ekki á strik eftir þetta fyrr en með nýjum Ádi A4 árið 1996.

 Árið 1976 kom Chrysler fram með Dodge Aspen og Plymouth Volare sem varv sami bíllinn undir tveimur nöfnum. Þetta voru minni meðalbílar að stærð á bandarískan mælikvarða og mjög hefðbundnir bílar þess tíma. Vélar og annað gangverk var þrautreynt í öðrum gerðum Chryslerbíla gegn um tíðina og nánast engar nýjungar fyrirfundust í þessum bílum. Því hefði mátt ætla að þeir væru áreiðanlegir og ekki bilanagjarnir en það reyndist alls ekki svo. Bæði Aspen og Volare eru meðal mest innkölluðu bíla sögunnar. Árið 1976 voru þeir ininkallaðir hvorki meira né minna en níu sinnum vegna galla í útblásturskerfum og mengunarvarnarbúnaði, eldsneytiskerfum, sætisbeltum og mörgu mörgu öðru. Það þykir með ólíkindum hversu mörgum mistökum í framleiðslu og samsetningu þessara bíla var hægt að koma fyrir í þeim.

Þar fyrir utan reyndust þessir bílar frámunalega bilanagjarnir og erfiðir í rekstri og þeir eru taldir eiga stóran þátt í því að Chrysler fór nánast á hausinn á árunum 1978 og 1979 og hefði gert það ef ríkið hefði ekki bjargað því með því að moka í fyrirtækið víkjandi lánum og halda þannig í því lífinu. En um leið var gamli forstjórinn rekinn og nýr ráðinn, - dugnaðarforkurinn Lee Iaccoca sem kom Chrysler aftur á lappirnar.