Vetnisknúnar Toyotur á samkeppnishæfu verði 2015

The image “http://www.fib.is/myndir/Toyotavetni.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Toyota, eins og flestir stærstu bílaframleiðendur heims, leggur um þessar mundir mikið atgervi og mikla fjármuni í þróun vetnisknúinna rafbíla og stefnir á það að slíkir bílar verði raunhæfur valkostur fyrir bifreiðakaupendur árið 2015. Þeir vetnisknúnu rafbílar sem nú eru í umferð, þ.e. bílar með efnarafal sem breyta vetni í raforku sem knýr bílana áfram, eru mjög dýrir, enda nokkurskonar frumgerðir. Toyotamenn stefna á að ná framleiðslukostnaði þessara bíla niður um heil 95%. Það þýðir að þeir verða á samkeppnishæfu verði við hefðbundna bensín og dísilfólksbíla.
Þeir sem í þessi mál spá í Bandaríkjunum fullyrða að þeir efnarafalknúnu fólksbílar sem nú eru í umferð kosti um milljón dollara stykkið að meðaltali. Í markmiði Toyota um slíka bíla á samkeppnishæfu verði kemur fram að slíkur bíll eigi að kosta 50 þúsund dollara við verksmiðjudyr. Til að þetta takist verði að fjöldaframleiða þessa bíla í miklu magni en fleira þarf að koma til. Í efnarafalinn sjálfan þarf nefnilega platínu eða hvítagull sem hvata til að breyta vetninu í rafmagn (og varma og vatn) en platínan er gríðarlega dýr málmur. Til að hægt verði að ná framleiðslukostnaðinum jafn mikið niður og Toyota stefnir á hlýtur að þurfa að finna eitthvert annað og ódýrara hvataefni en platínuna. Rosario Beretta er verkefnisstjóri hjá DaimlerChrysler í rannsóknum og tilraunum á vetnisknúnum bílum og kom hingað til lands með vetnisknúinn A-Benz fyrr í vor og bauð FÍB í ökuferð. Í ökuferðinni á vetnisbílnum var hann spurður um málið. Hann sagði að menn leituðu með logandi ljósi að öðrum jafngóðum efnum og platínu til að nota í efnarafalana og væru vongóðir um að lausn fyndist. DaimlerChrysler vinnur náið að þessum málum kanadíska fyrirtækinu Ballard sem er leiðandi á heimsvísu í gerð efnarafala. Hvernig efnarafallinn vinnur er ágætlega skýrt út á beimasíðu Ballard. Slóðin er http://www.ballard.com/ .
Eins og áður hefur verið greint frá hér á FÍB fréttavefnum hefur General Motors fyrir nokkru sett fram það markmið að geta boðið upp á efnarafalsbíla strax árið 2010, bíla sem eru samkeppnishæfir eru við venjulega bíla hvað varðar notagildi og verð en hafa það framyfir hina hefðbundnu að eini útblásturinn frá þeim er algjörlega meinlaus vatnsgufa. Markmið GM þykir í bjartsýnna lagi, markmið Toyota þykir raunhæfara. Fregnir berast nú af því að fulltrúar fyrirtækjanna eigi í viðræðum um samstarf á þessu sviði.
En erfiðasti hjallinn fyrir vetnisknúna bíla er þó sá að innviðir samfélaga eru ekki tilbúnir fyrir vetnisbíla. Stöðvar sem framleiða og geyma fljótandi vetni eru ekki á hverju strái og hvernig á svo að búa vetnið til? Ísland hefur vissulega sérstöðu því hér er hægt að búa það til með rafmagni frá fallvötnum og jarðgufu sem stöðugt endurnýjast. Annarsstaðar eru kostirnir þeir að búa það til úr rafmagni sem framleitt hefur verið með jarðefnaeldsneyti eða þá kjarnorku. Þar með er hinn mengunartengdi ávinningur orðinn vafasamur.
The image “http://www.fib.is/myndir/ABenzFCell.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
A-Benz með efnarafal sem breytir vetni í rafmagn sem svo knýr bílinn áfram.