Vetnisljósavél í Eldingu

http://www.fib.is/myndir/Elding.jpg
Hvalaskoðunarskipið Elding er komið með vetnisljósavél, fyrst íslenskra skipa.

Í gær, sumardaginn fyrsta, var vetnisljósavél tekin í notkun í hvalaskoðunarbátnum Eldingu. Um er að rða tilraunaverkefni sem er hluti svokallaðs SMART-H2 (Sustainable Marine and Road Transport, Hydrogen in Iceland) verkefnis sem hófst formlega í nóvember í fyrra.

„Losun gróðurhúsalofttegunda er meiri á hvert mannsbarn á Íslandi en í flestum öðrum löndum heims. Stór hluti af þeirri losun fellur til við eldsneytisbruna. Við þurfum að finna nýjar lausnir. Þetta verkefni er prýðilegt dæmi um frumkvæði Íslendinga í rannsóknum og nýtingu visthæfs eldsneytis,“ sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra m.a. þegar hún hleypti verkefninu formlega af stokkunum úr stafni Eldingarinnar við Ægisgarð.

Í fréttatilkynningu um atburðinn í gær segir að markmiðið með vetnisverkefninu um borð í Eldingu sé að öðlast skilning á því hvaða áhrif sjávarhreyfing, salt og aðrir álagsþættir hafa á vetnisljósavélina, eða efnarafalann, sem jafnframt er studdur með rafgeymum og því um svokallað tvinnkerfi (hybrid) að ræða. Alls geti kerfið framleitt 10 kW, sem uppfyllir alla raforkuþörf Eldingarinnar, og því kemur kerfið að fullu í stað dísilljósavélarinnar sem var um borð í skipinu.

Kerfið um borð í Eldingu er hannað og smíðað af innlendum aðilum, fyrir utan efnarafalinn sjálfan sem er smíðaður erlendis. Jafnframt hefur verið reist dreifistöð á Ægisgarði sem mun sjá Eldingunni fyrir vetni.http://www.fib.is/myndir/Umhverfradh.jpg

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra tekur við skoðunar- og viðurkenningarskýrslu Þýska Lloyd´s fyrir vetnisljósavél Eldingar úr hendi Rainer Gutzmer svæðisstjóra Þýska Lloyd´s á Norðurlöndum.