Vetrardvöl á tjaldsvæði

http://www.fib.is/myndir/FDM.jpg

Tjaldbúðaferðalög eru stöðugt að verða vinsælli meðal Íslendinga og sl sumar nutu margir þessa góða ferðamáta bæði erlendis og hér heima. En nú er vetur að ganga í garð og flestir eru búnir að leggja tjaldvögnum sínum, felli- og hjólhýsum og húsbílum. En ennþá eru tjaldsvæði í Evrópu víða opin og sum opin allt árið enda eru nýjustu hjólhýsi mörg mjög vel einangruð og ekkert því til fyrirstöðu að gista í þeim þótt kalt sé í veðri.

FDM; Systurfélag FÍB í Danmörku rekur fjölda tjaldsvæða og þrjú þeirra eru opin allt árið um kring. Þeim félagsmönnum FÍB á ferð í Danmörku í vetur gefst kostur á skemmri eða lengri dvöl á þessum ágætu og vel búnu svæðum á sömu kjörum og bjóðast félagsmönnum FDM. Þessi tjaldsvæði eru í Billund á Jótlandi, Bjerge Sydstrand á Stórabeltisströnd Sjálands og í Holbæk á Sjálandi, skammt vestan Kaupmannahafnar. Á þessum tjaldsvæðum er boðið upp á gistingu í nýjum og vel einangruðum hjólhýsum eða smáhýsum auk hefðbundins aðgangs að allri aðstöðu á svæðunum, svo sem sameiginlegrar eldunar-, þvotta- og baðaðstöðu. http://www.fib.is/myndir/Bjerge003.jpg

Søren Dahlin er framkvæmdastjóri tjaldsvæða FDM. Hann segir að stöðugt fleiri kjósi að dvelja á tjaldsvæðunum að vetrinum, ýmist helgi og helgi eða um lengri tíma. Aðsókn sé ágæt og nú þegar hafi margir pantað dvöl yfir jólin og áramótin. Uppselt sé orðið á svæðinu í Holbæk en ennþá séu laus pláss á hinum svæðunum tveimur.

Frá tjaldsvæði FDM að Bjerge Sydstrand