Vetrarfærð er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum

Þótt komið sé fram í júnímánuð varar Vegagerðin við vetrarfærð á Mývatns- og Möðrudalsöræfum, krapi á vegi og hálka. Það er hálka á Dettifossvegi en krapi á Hólssandi og eins á Hófaskarði.

Hellisheiði eystri er þungfær en krapi er bæði á Fjarðarheiði og Vatnsskarði eystra.

Veðurstofan segir að búast megi við slyddu eða jafnvel snjókomu á fjallvegum N-til á landinu fram eftir degi. Akstursskilyrði geta spillst og ökumönnum eindregið ráðlagt að búa sig miðað við aðstæður.