Vetrarþjónusta í Víkurskarði verði aukin

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hefur vetrarþjónusta í Víkurskarði verið lækkuð úr þjónustuflokki 2 niður í 3 sem hefur í för með sér mun minni þjónustu en áður. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps mótmælir harðlega þessari þjónustuskerðingu Vegagerðarinnar. Þetta kemur fram í bókun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps sem samþykkt var á fundi hennar miðvikudaginn 22. janúar.

Í bókuninni kemur fram að þetta þýði samkvæmt svari Vegagerðarinnar að í „mildu veðri þar sem ekki er mikil ofankoma og vindur, er vegurinn þjónustaður samkv. þjónustuflokki 3 og þjónusta hefst um kl. 07:30 og lýkur um kl. 20:00 á virkum dögum. Þegar færð fer að spillast og mikil snjósöfnun verður á vegum áskilur Vegagerðin sér rétt til þess að skerða þjónustu um Víkurskarð.

Lokun á Víkurskarði skal vera þannig að þegar færð er farin að spillast og vindur er kominn í 10 m/sek með úrkomu og/eða skafrenningi, og veðurspáin er versnandi þá skal hætta mokstri. Ekki verður farið í opnun vegar fyrr en vindur er kominn niður fyrir 10 m/sek og veðurspá batnandi og úrkoma og skafrenningur eru hætt. Opnun á Víkurskarði nýtur ekki forgangs þannig að ef mikið álag er í snjómokstri þá ganga aðrar leiðir fyrir og opnun fer fram um leið og allar aðalleiðir eru orðnar færar. Tímasetningar hér að ofan eru miðaðar við meðal snjóalög. Í miklum snjó er gert ráð fyrir að opnun vega geti verið seinni en að ofan greinir.“

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps mótmælir harðlega þessari þjónustuskerðingu Vegagerðarinnar. Vaðlaheiðagöng eru sannarlega mikil samgöngubót en allan tímann var því haldið á lofti að þjónusta í Víkurskarði yrði ekki skert með tilkomu ganganna.

Ekkert samráð hefur verið haft við sveitarfélögin við skerðingu á þjónustu í Víkurskarði. Með þjónustuskerðingunni er Vegagerðin að þvinga íbúa til þess að fara í gjaldtöku í göngunum og er þetta eina svæðið á landinu sem býr við slíkar aðstæður. Þessu er mótmælt harðlega og farið fram á að þjónusta í Víkurskarði verði færð aftur í þjónustuflokk 2 að því fram kemur í bókun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps.