Viðskiptaráðherra geri þá kröfu að olíufélögin skili verðlækkun á heimsmarkaði til íslenskra neytenda

Lilja Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra, segir afar brýnt að olíufélögin hér á landi taki þátt í baráttunni gegn verðbólgu og skili verðlækkun á heimsmarkaði til íslenskra neytenda. Olíufélögin hafi ekki gefið fullnægjandi skýringar á verðmun hér og í Danmörku. Þetta kom fram í máli ráðherra í viðtali í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins.

Það skiptir miklu máli að samkeppnin sé virk

,,Nú er það svo að verðbólga á heimsvísu er að lækka vegna þess að olíuverð og orka er að lækka. Á sama tíma gerum við þá kröfu að það sama gerist hér á Íslandi. Það skiptir miklu málu að samkeppnin sé virk. Það verður líka að segjast alveg eins og er að þegar maður skoðar þennan mismun, annars vegar hér á landi og í Danmörku hins vegar, þá er munurinn of mikill að mínu mati svo að olíufyrirtækin geti skýrt það út fyrir okkur,“ sagði Lilja.

Skoðun stendur yfir í viðskiptaráðuneytinu og hjá samkeppniseftirlitinu um þessi mál

Viðskiptaráðherra hvetur olíufélögin enn og aftur til að taka þátt í barátunni gegn verðbólgu. Hún telur mikilvægast að sú verðlækkun sem er að eiga sér stað á heimsmarkaði skili sér til íslenskra neytenda. Hún segir skoðun standa yfir í viðskiptaráðuneytinu um þessi mál. Samkeppniseftirlitið hefur einnig verið að skoða þennan markað og við í ráðuneytinu höldum áfram að gera það líka. Lilja telur afar brýnt að olíufélögin taka þetta mál til sín.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sagði fyrr í vikunni að eldsneytisverð gæti verið lægra hér ef samkeppnin væri meiri. Verðið sé hátt í alþjóðlegum og evrópskum samanburði þegar opinber gjöld hafa verið dregin frá.

Samkeppniseftirlitið segir eldsneytisverð of hátt í alþjóðlegum og evrópskum samanburði

„Athuganir okkar sýna að eldsneytisverð hér á landi þegar opinberu gjöldin hafa verið tekin frá eru há í alþjóðlegum og evrópskum samanburði. Og athuganir okkar sýna líka skýrt að þegar nýir aðilar koma inn á markaðinn og hefja samkeppni, þá skiptir það mjög miklu máli og örvar samkeppnina og skýrasta dæmið um það er þegar Costco hóf hérna sölu á eldsneyti,“ sagði Páll Gunnar.

Forstjóri Skeljungs hafnar því hins vegar að olíufélögin haldi olíuverðinu óeðlilega háu.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, gerði í vikunni athugasemdir við ummæli forstjóra Skeljungs þar sem félagið undrast hvernig Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs, reynir að afvegleiða umræðu um óeðlilega hátt bensínverð hér á landi með þeim ummælum að hér á landi séu ekki reknar olíuhreinsistöðvar. Því sé ekki rétt að miða útsöluverð á eldsneyti við verðsveiflur á heimsmarkaðsverði hráolíu. Þessu hélt Þórður fram í viðtali við RÚV þann 10. apríl.