Viðvaranir til erlendra ferðamanna

Slæmt illviðri hefur gengið yfir landið síðasta sólarhringinn. FÍB fréttir ræddu í morgun við mann sem lagði af stað frá Seyðisfirði í gærmorgun áleiðis til Akureyrar. Hann var á ágætlega búnum bíl og með duglegum og hraustum samferðarmönnum. Ferðin yfir Fjarðarheiðina sóttist seint vegna illviðris og ófærðar. Svipaða sögu var að segja á Jökuldalnum og upp á Möðrudalsöræfin en eftir það hefði verið nokkuð greiðfært. Alls tók ferðin um 10 klst.

Umtalsverður fjöldi erlendra ferðamanna kemur til landsins með Norrönu til Seyðisfjarðar til að ferðast um landið á eigin farartækjum. Ennfremur leigir verulegur fjöldi erlendra ferðamanna bílaleigubíla til að ferðast um landið. Fjöldi þessara erlendu ferðamanna er ennþá á ferðinni á vegum landsins nú þegar allra veðra er von eins og dæmin sanna.  

Í því ljósi stingur það í augu hversu viðvaranir og upplýsingar  um illviðri í aðsigi og um ástand vega til þessara ferðalanga eru af skornum skammti. Á Safetravel.is sem sérstaklega er ætlað að tala til erlendra ferðamanna er ekki neitt að finna um þetta á erlendum málum. Engar viðvaranir á erlendum málum er heldur að finna á vef Vegagerðarinnar og ekkert á Grapewine. Vefurinn vedur.is stendur sig best. Þar var viðvörun á ensku um slæmt veður í aðsigi.

FÍB hefur lengi gagnrýnt handahófsvinnubrög í merkingum við vegi og á þeim og það metnaðarleysi sem þau vitna um. Slys á erlendum ferðamönnum á vegunum og aðrar uppákomur vitna nokkuð um þetta enda eru margir þeirra öðru og betra vanir í sínum heimkynnum og vænta þess sama í vestrænu ríki sem Ísland er. Gott dæmi um þetta eru séríslenskar merkingar sem tákna það að malbik endi og framundan sé malarvegur. Algengt er að undir þessu merki sé áletrun á íslensku sem segir að malarvegur sé framundan og þann texta skilja útlendingar sjaldnast.

Á söndunum miklu á Suður og Suðausturlandi gerir oft mikla storma og sandfok. Bæði austan og vestan þeirra standa skilti sem vara við þessu, en þau eru einungis á íslensku – þöglir vottar um metnaðarleysi og áhugaleysi á forvörnum í allra þágu – líka útlendinga.