Vilja auka samkeppni á eldsneytismarkaði í Bretlandi

Vilja auka samkeppni á eldsneytismarkaði í Bretlandi

Samkeppnis- og markaðseftirlitið í Bretlandi, CMA, sendi í síðustu viku stjórnvöldum tillögur um aðgerðir til að efla samkeppni á eldsneytismarkaði. Ítarleg rannsókn CMA leiddi í ljós að samkeppni í smásölu á bensíni og dísilolíu hefur verið að veikjast umtalsvert frá árinu 2019.

Tillögur CMA til breskra stjórnvalda ganga m.a. út á það að neytendum séu tryggðar aðgengilegar upplýsingum um eldsneytisverð á öllum útsölustöðvum. Skylda á eldneytissala til að birta nýjustu verð á opnum netsvæðum sem eru öllum aðgengileg.

Sem stendur er verð á bensíni- og dísilolíu í mörgum tilvikum aðeins aðgengilegt á bensínstöðinni þar sem það er afgreitt. Verðsamanburður er erfiður og oft á tíðum ómögulegur fyrir neytendur sem aftur dregur úr samkeppni.

Breska ríkisstjórnin lofar umbótum eftir að CMA kallaði eftir auknu gagnsæi á eldsneytismarkaði. Markmiðið er að hafa aðgengilegar verðupplýsingar til að efla samkeppni á milli eldsneytissala.

Rannsókn Samkeppnis- og markaðseftirlitsins

CMA rannsakaði fjárhagslega afkomu og rekstur olíuhreinsunarfyrirtækja og heildsölu- og smásölufyrirtækja á eldsneytismarkaði. Markmiðið var að ná utan um þróunina á markaðnum. Breski markaðurinn hefur sveiflast mikið varðandi verð á bensíni og dísilolíu sem að stórum hluta hefur tengst heimsmarkaðsþróun hráolíuverðs. Eldsneyti er veigamikill þáttur í framfærslukostnaði og CMA taldi mikilvægt að kanna hvort eitthvað fleira væri að hafa neikvæð áhrif á verðmyndunina á markaði.

Rannsóknin leiddi í ljós veikari samkeppnisstöðu á milli bensínstöðva og að framlegð í smásölu á eldsneyti hafði hækkað umtalsvert frá árinu 2019. CMA greindi ekki samráð á milli olíusala frekar tilbrigði við hjarðhegðun.

Eldsneytisstöðvar við stórmarkaði hafa verið leiðandi í verðsamkeppni á breska markaðnum og boðið hagstæðustu verðin. Asda verslunarkeðjan var nánast markaðsráðandi varðandi ódýrara eldsneyti og Morrisons vöruhúsin fylgdu fast á eftir. Yfirtaka fjárfestingarsjóða á Asda og Morrissons leiddi af sér auknar kröfur um framlegð af vöru- og eldsneytissölu. Margir aðilar á markaðnum eltu verðþróunina hjá “ódýru” keðjunum þar á meðal Sainsbury’s og Tesco. Áhrif hækkunar álagningar ódýru stöðvanna skilaði sér í hærri álagningu á markaðnum í heild sinni. Framlegðin jókst mest frá 2022 til 2023.

156 milljarðar króna úr vasa breskra neytenda vegna aukinnar álagningar 2022

CMA segir að meðalframlegð á hvern lítra af eldsneyti hafi hækkað um 6 pens frá 2019 til 2022. Þetta hefur leitt af sér aukakostnað upp á um 900 milljónir punda (156 milljarðar króna) fyrir eldsneytisviðskiptavini fjögurra stórmarkaðskeðja á árinu 2022 eða að jafnvirði 75 milljón pund á mánuði. Í ár 2023 hafa verðáhrif aukinnar framlegðar orðið þyngri á dísilolíu en bensín.

Að mati CMA lækkaði verð á breska eldsneytismarkaðnum eftir miðlun frumgagna um vöruverð á seinni hluta síðasta árs. Sama átti við í kjölfar uppfærslu á gögnum um framfærslukostnað í maí sl. þar sem sterkar vísbendingar komu fram um aukið svigrúm smásöluaðila til að lækka vöruverð.

Talsmenn systursamtaka FÍB í Bretlandi fagna þessum áfanga og ítreka fyrri gagnrýni sína á óeðlilega hækkun álagningar á bensín og dísilolíu síðustu misserin.

Staðan á Íslandi

Hér á landi hafði innkoma Costco í Garðabæ jákvæð áhrif á samkeppni á eldsneytismarkaði og Costco hefur síðan verið í farabroddi og boðið ódýrasta bensínið og dísilolíuna. Það er neikvætt að eldsneytisverðið hjá Costco er aðeins aðgengilegt á útsölustaðnum í Garðabæ og birtist ekki á heimasíðu fyrirtækisins. Þakkarvert einkaframtak Sveins Flóka Guðmundssonar, www.gasvaktin.is, miðlar upplýsingum til neytenda um eldsneytisverð m.a. hjá Costco sem sótt eru með heimsókn í Kauptún.

Hækkun álagningar í kjölfar yfirtöku á hlutafélagi á markaði er eitthvað sem íslenskir neytendur kannast við sbr. "Skel horfir til að skrá Skeljung og Orkuna á markað"

Það verður áhugavert að sjá hvort Samkeppniseftirlitið komi með eitthvað útspil á næstunni vegna hækkunar álagningar og fákeppnisástands á íslenska markaðnum. Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins sagði á RÚV í apríl sl. að eldsneytisverð á Íslandi væri hátt í alþjóðlegum og evrópskum samanburði. Hann sagði einnig, líkt og FÍB hefur hamrað reglulega á, að eldsneytisverð gæti verið lægra hér á landi ef samkeppnin væri meiri. Vinnubrögð systurstofnunarinnar í Bretlandi eru til eftirbreytni.