Vill sameina GM og Fiat/Chrysle

Sergio Marchionne forstjóri Fiat og Chrysler hefur undanfarið reynt að sannfæra fjárfesta og fá þá til að vinna að því að sameina Fiat/Chrysler og General Motors. Í gær upplýsti Mary Barra forstjóri GM á ársfundi fyrirtækisins að hún hefði fengið tölvupóst frá Marchionne. Í honum leitaði hann eftir stuðningi hennar við þessa sameiningarhugmynd. Mary Barra kvaðst hafa hafnað henni og hefði haft fullan stuðning stjórnar GM til þess.

Marchionne hefur lýst þeirri skoðun sinni að bílaframleiðendur þurfi að auka samvinnu og samruna enn frekar til að ná betri hagkvæmni í bílaframleiðslunni og lækka verðið til neytenda. Marchionne vill ná fram meiri hagkvæmni í hönnun, þróun og framleiðslu einstakra bílhluta eins og t.d. véla og knýbúnaðar. Allt of dýrt og fyrirhafnarsamt sé að hver einstakur framleiðandi sé að vasast í því sama hver í sínu horni og komast síðan að nánast sömu niðurstöðum.